Góð ráð eru stundum rándýr. Á þá lund hugsaði ungt íslenskt par sem fór í dúlluferð til Parísar fyrir nokkru og hugsaði gott til glóðar enda fyrsta rómantíska ferð þeirra saman.

Aldrei að vita hvenær ferðatöskur skila sér ekki með sömu vél og þú sjálfur. Þá kemur forsjálni sér vel. Mynd G.Clegg
Aldrei að vita hvenær ferðatöskur skila sér ekki með sömu vél og þú sjálfur. Þá kemur forsjálni sér vel. Mynd G.Clegg

En bros þeirra og tilhlökkun kárnaði nokkuð á De Gaulle flugvelli þegar ljóst var orðið eftir rúmlega klukkustundar bið að ferðatöskur þeirra höfðu ekki skilað sér með fluginu. Fyrir vikið var parið því í táfýlusokkum og tannburstalaus í næstum sólarhring áður en þau komust í verslun til að bæta úr.

Þó töskutap sé ekki ýkja algengt og sérstaklega ekki í beinu flugi frá Íslandi er engum um að kenna nema manni sjálfum að hafa ekki nokkra bráðnauðsynlega hluti með í handfarangri hvert sem flogið er í heiminum.

Hluti eins og:

♥  Hreinar nærbuxur – Enginn vill vera lengur í lúnum nærum en þörf er á ef eitthvað kemur upp á og lítið fer fyrir þeim í handfarangri.

♥  Tannbursti – Jafnvel þó ekki sé hægt að taka með sér tannkrem í handfarangur er hægt að bursta tennurnar eitt kvöld eða svo þangað til verslanir opna ef svo skyldi fara að töskur skila sér ekki.

♥  Hleðslutæki fyrir farsíma eða fartölvu. Ekkert er glataðra en verða sambandslaus jafnvel þó klæði skili sér ekki.

♥  Vegabréf, skilríki og ökuskírteini. Merkilegt nokk setja sumir slíka bráðnauðsynlega pappíra beint í venjulegan farangur og geta komist í hann krappan fyrir vikið.

♥  Linsur, meðul og pillur sem fólk getur ekki verið án. Enginn vill þvælast um París eftir langt flug að finna apótek og jafnvel lækni.

♥  Þá er ekki vitlaust að pakka aukabuxum og bol eða peysu. Líði langur tími áður en taskan kemst til skila þarf þá ekki að byrja á að fara að versla önnur föt.

Þessu tengt óhætt að hafa í huga að af þeim flugfélögum sem fljúga reglulega til og frá Keflavík er leyfilegur handfarangur yfirleitt að lágmarki 10 eða 12 kíló. Meira að segja sum lággjaldaflugfélög á borð við Norwegian leyfa þér að taka með eins þungan handfarangur og þú vilt svo lengi sem töskudruslan komist undir sætið eða í farangurshólf með góðu móti. .