Fæst eigum við tug- eða hundruðir milljóna króna sem safnar ryki á bankabók hér og þar eins og raunin er með minnst tvo þá formenn þingflokka sem telja sig best til þess fallna til að leiða skrílinn til betri lífskjara. En þótt við eigum engar stóreignir til að fela í skattaskjólum finnast þó stöku staðir þar sem við fáum meira en ella fyrir peningana okkar.

Fögur er hlíðin sannarlega á Hlíðarenda en ekki eru þær síðri við bæinn Livigno. Mynd Caccamo

Flestir kannast við lágt verðlag á hinum ljúfu Kanaríeyjum sem kalla má semí-skattaparadís því þar er enginn formlegur virðisaukaskattur á vörum og þjónustu og tollar og gjöldum haldið í lágmarki þó reyndar lagt sé á sérstakt aukagjald, IGIC, á margt það sem selt er ferðafólki. Það gjald fer þó alfarið til stjórnvalda á hverri eyju fyrir sig en endar ekki í Madríd eða Brussel.

Auðvitað finnast aðrir slíkir staðir þar sem sölu- eða virðisaukaskattar eða tollar og gjöld eru lítil sem engin. Mónakó annað dæmi en mínusinn sá að verðlag þar miðast almennt við milljarðamæringa svo jafnvel þó ríkisgjöld séu lítil sem engin tæmist veski meðalmanns fljótt og örugglega á þeim slóðum. Sömuleiðis er smáríkið Andorra næsta skattlaust gagnvart ferðafólki.

Ein „skattaparadís“ finnst líka á Ítalíu en gangi þér vel að þefa hana uppi – nema auðvitað þú lesir Fararheill 🙂

Sá mæti staður er agnarlítið þorp sem liggur í djúpum dalbotni Alpafjalla skammt frá landamærum Ítalíu og Sviss. Livigno heitir þorpið og þar búa hvorki fleiri né færri en fjögur þúsund hræður. Örlítið fleiri en kalla Stykkishólm heimabæinn.

Livigno þessi er eini staðurinn á Ítalíu sem nýtur sérstakra skattakjara hjá þarlendum stjórnvöldum. Þar er ENGINN SKATTUR á neinu og vörugjöld eða aðrir tollar við núllið. Svo hefur það verið frá miðöldum og ástæðan sú að svo afskekktur var bærinn og erfitt að komast að að skattar voru alfarið felldir niður til að vega upp á móti þeim erfiðleikum.

Merkilegt nokk hefur bæjarbúum tekist að viðhalda fríðindum sínum þrátt fyrir að nú á dögum séu vegir um allar trissur til og frá og fyrir því einfaldlega sú ástæða að Livigno hefur á síðari árum notið vinsælda ferðafólks og ekki síður sækja hingað íbúar nágrannabæja reglulega til að birgja sig upp og það á 30 prósent lægra verði en gerist annars staðar.

Það í ofanálag við að verðlag almennt á Ítalíu er mjög í lægri kantinum miðað við Ísland gerir það æði freistandi að kíkja hér við og ekki hvað síst sé fólk í skíðaferðum á þessum slóðum. Hingað tekur aðeins þrjár stundir að aka frá bæði Mílanó og Zurich og innan við klukkustund frá mörgum þekktum skíðasvæðum eins og Ischgl eða St Moritz.

Jafnvel þó vörur og þjónusta á ríflegum afslætti heilli kannski ekki alla þá er ekkert minna varið í stórkostlega náttúruna á þessum slóðum. Fjölmargar fyrirtaks gönguleiðir á sumrin og hér príma skíðasvæði á veturna.

Ekki slæmt stopp ef þú spyrð okkur.