Ókyrrð í háloftunum fer fyrir brjóst flestra þeirra er svöruðu spurningu Fararheill.is  um hvað væri versta upplifunin um borð í flugvélum. Fullur sætisfélagi þar rétt á eftir.

Meiriháttar ókyrrð kemur hjartanu af stað hjá velflestum okkar.
Meiriháttar ókyrrð kemur hjartanu af stað hjá velflestum okkar.

Við spurðum lesendur okkar um þeirra verstu upplifun í háloftunum en þó flugferðir séu merkilega öruggur ferðamáti og töluvert öruggari en til dæmis að aka bíl er það samt raunin að mörgum hryllir við að fljúga.

Svör við spurningu okkar staðfesta það því 42% þátttakenda segjast óttast ókyrrð umfram allt annað á flugi.

Það bæði skiljanlegt og eðlilegt. Ekkert kemur hjartanu til að slá hraðar en slæm ókyrrð og í verstu tilfellum getur slíkt varað í 20 til 30 mínútur í senn. Það er í þau skipti sem fólk vonar að einhver hjá Boeing eða Airbus hafi ekki verið hálfsofandi í vinnunni þegar vélin var framleidd.

En þó ókyrrð per se geti vart grandað farþegavélum þá getur slíkt auðveldlega slasað fólk alvarlega og mörg dæmi eru um að fólk sem ekki er spennt í sæti hefur orðið fyrir alvarlegum slysum þegar vélin tekur skyndilega að vagga og velta til og frá.

Ekkert óvænt þar. Hins vegar er ástæða númer tvö ívið merkilegri. Í ljós kemur að 21 prósent svarenda sögðu ekkert meira ömurlegra við flugferðir en sitja við hlið eða nálægt drukknu fólki. Fleirum finnst það óþolandi en innilokunarkennd sem 18 prósent segja það allra versta. Tvö prósent til viðbótar sögðust óttast ógleði í flugferðum.

Enginn minntist einu orði á hryðjuverk sem er þó meginástæða þess hve flugferðalög eru orðin leiðinleg með yfirgnæfandi öryggiskröfum og bið og leiðindum fyrir flesta. Það kannski meira leiðinlegt við flugvelli samt.

Þökkum þátttökuna en alls 1465 tóku þátt og svöruðu. Ekki er um hávísindalega úttekt að ræða en niðurstaðan gefur þó feitar vísbendingar 😉