Átján daga löng sérferð ferðaskristofunnar Heimsferða til Víetnam með haustinu fær gullstimpil Fararheill sem verðugur kostur ef Asía heillar. Það jafnvel þó kostnaðurinn sé rúmlega sex hundruð þúsund kall á kjaft miðað við tvo saman.

Da Nang í Víetnam einn áfangastaður af nokkrum í átján daga túr Heimsferða með haustinu.

Jamms, sumir taka andköf þegar skoðaðar eru sérferðir margra ferðaskrifstofanna hérlendis. Jafnvel þó um ferðir á fjarlægar slóðir sé að ræða meikar ekkert sens að þeir túrar kosti hjónakorn jafn mikið og ársgömul, lítið ekin Toyota Corolla. Nú eða brakandi nýr heitur pottur í garðinum með allri vinnu meðtaldri.

Við hér tökum gjarnan að okkur að skoða hvort um megagrægði er að ræða þegar ferðir kosta vel yfir milljón krónur og í þessu tilfelli er um dágóðan díl að ræða þrátt fyrir háa upphæðina. Samtals kostnaður fyrir hjónakorn eða par er rétt tæp 1,2 milljón króna eða rúmlega 66 þúsund krónur hvern einasta dag ferðarinnar.

Upphæðin bara djók fyrir Alþingismenn, yfirmenn í bönkunum og annað misyndisfólk sem telur sig merkilegri en aðra. En fyrir þorra almennings er 1,2 milljón króna drjúgur hluti þess sem við eigum eftir þegar skattmann hefur tekið sitt til að borga meðal annars fyrir eilífar helgarferðir Lilju Rafneyjar, þingmanns VG, til síns heima á Þingeyri og akstur Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, kringum hnöttinn á hverju ári, svo ekkert sé nú minnst á milljarða króna kostnað við að tæma sand úr Landeyjahöfn svo Vestmanneyingar komist reglulega í Kringluna.

Hátt verð en sanngjarnt

Við hér eyddum rúmum tveimur klukkustundum í að reyna að setja saman sams konar ferð og Heimsferðir bjóða til Víetnam í september og að setja saman sama túrinn var leikur einn. En að ná ferðinni á betra verði tókst okkur ekki. Með því að skipuleggja sömu ferð á sömu dagsetningum sjálf kostaði túrinn atarna að lágmarki 70 þúsund krónur meira en Heimsferðir bjóða.

Ergo: sallafínt tilboð til yndislegs lands með mörgu inniföldu og íslenskum fararstjóra með. Mælum með þessu jafnvel þó eitt og annað skjóti skökku við (eins og að fljúga til Frankfurt og gista lengst í rassgati) 😉