Þrátt fyrir að flugfélagið Icelandair hafi gegnum tíðina oftar en ekki okrað og fiffað eins og eigandi Adam á Skólavörðustíg hefur flugfélagið undanfarin ár stöku sinnum verið samkeppnishæft í flugi. En ekki er það raunin til Chicago sumarið 2017.

Fargjöld Icelandair töluvert dýrari en það sem Wow Air býður til Chicago í sumar. Samsett mynd

Nú er sumarið langþráða að ganga í garð og þó fjölmargir hafi skipulagt sín ferðalög sumarið 2017 fyrir margt löngu eru enn margir þarna úti sem enn eru að spá og spekúlera.

Einhverjir þeirra gætu séð heimsókn til Chicago í hillingum enda aldrei verið auðveldara né ódýrara að fljúga beint þangað. Ekki hvað síst í júlí þegar skipulagt áætlunarflug Wow Air hefst og þá kominn keppinautur við Icelandair sem setið hefur eitt að kökunni um eins árs skeið.

Við kíktum því á hvort Icelandair væri reiðubúið undir þá samkeppni og tókum þrjár handahófskenndar stikkprufur á flugi til Chicago og heim aftur. Hafi einhver vonað að milljarðafyrirtækið Icelandair væri þar á tánum er óhætt að slökkva á þeirri von.

Það sést glögglega á meðfylgjandi töflu en þar borið saman lægsta verð með Icelandair annars vegar og Wow Air hins vegar fyrir einn einstakling og í þessu dæmi eru fargjöld Icelandair borin saman við Wow Plus fargjöld Wow sem gefur leyfi fyrir innritaðri tösku og handfarangri. Það er því um sömu vöru að ræða ef frá er talið afþreyingar- og netkerfi Icelandair en ekkert slíkt er í vélum Wow Air.

Einhver kynni að benda á að Icelandair er að standa sig skrambi vel í september en þar er nánast jafntefli milli keppinautana. En þegar tillit er tekið til að vélar Icelandair eru 20 plús ára gamlar og menga eins og kínversk kolaverksmiðja og vélar keppinautsins ekki er valið auðvelt.

* Úttekt gerð kl. 20 þann 16 maí 2017 hjá báðum aðilum samtímis. Lægsta verð á flugi báðar leiðir fyrir einn með innritaða tösku. Hafa skal hugfast að verðbreytingar eru örar hjá báðum aðilum.