Þetta hljómar eins og lélegur málsháttur úr enn lélegra páskaeggi: Oft standast ferðir ekki væntingar. En það gera þær sannast sagna ekki hjá 57 prósent fólks á aldrinum 18 til 59 ára samkvæmt norskri rannsókn.

Fjölmargir segja loforð ferðaskrifstofa ekki standast þegar til kemur
Fjölmargir segja loforð ferðaskrifstofa ekki standast þegar til kemur. Mynd h_conny

Ráðgjafafyrirtækið InFact í samvinnu við Dohop spurðist fyrir um það hjá stórum hópi fólks hvort ferðalög stæðust ávallt þær væntingar sem ferðaþjónustuaðilar auglýsa. Meirihluti svarenda sagði svo ekki vera.

Af þeim segja 57 prósent í heildina að það hafi oft gerst eða stundum gerst að auglýstar ferðir stæðust ekki gefin loforð þegar upp var staðið.

Eykst óánægjan enn meira meðal ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára en þar segjast 58 prósent hafa orðið fyrir vonbrigðum með skipulagt ferðalag á vegum ferðaskrifstofu. Meðal eldra fólks, yfir 65 ára, hafa 42 prósent upplifað annað og verra á ferðalögum en til hafi staðið.

Tók rannsóknin bæði til þeirra áfangastaða sem ferðast var til en ekki síður hótela, aðbúnaðar og þjónustu. Forvitnilegt væri að vita hvort sama er uppi á teningnum hérlendis en samkvæmt reynslu ritstjórnar Fararheill fer fjarri að fólk sé ætíð sátt við ferðir sínar.