Hvergi í Evrópu er ódýrara að hreiðra um sig á hóteli að meðaltali en í borginni Vilníus í Litháen. Sömuleiðis er billegt að halda til í Ríga í Lettlandi og meðalverð hótela í Bratislava í Slóvakíu er ekki dýrt heldur.

Að meðaltali var hvergi ódýrara að kaupa gistingu en í borginni Vilníus í Litháen fyrri hluta þessa árs

Þetta eru niðurstöður leitarvefsins Hotels.com á fyrsta helmingi ársins og gera má að því skóna að tölurnar gildi gróflega einnig um hótelgistingu seinni hluta ársins ef marka má fyrri úttektir á meðalkostnaði við hótelgistingu.

Íslendingar hafa komist til Vilníus að undanförnu með Iceland Express og sömuleiðis bauð Wow Air upp á flug til Kaunas í Litháen í sumar. Þar má gera ráð fyrir að verðlagning sé enn lægri en gengur og gerist í höfuðborginni þó listi Hotel.com nái aðeins til stærri borga.

Í öllu falli er þetta listinn yfir ódýrustu borgir Evrópu fram til júlí 2012 með tilliti til hótelgistingar. Auga leið gefur að því minna sem greiða þarf fyrir þak yfir haus því meira er hægt að dúllast við sjálfan sig í ævintýrum, heilsudúlli og eða eyða peningunum í verslunum.

  1. Vilníus, Litháen > meðalverð á nótt 11.036 krónur
  2. Ríga, Lettland > meðalverð á nótt 11.636 krónur
  3. Bratislava, Slóvakía > meðalverð á nótt 12.239 krónur
  4. Kraká, Pólland > meðalverð á nótt 12.441 krónur
  5. Tallinn, Eistland > meðalverð á nótt 13.243 krónur
  6. Búdapest, Ungverjaland > meðalverð á nótt 13.243 krónur
  7. Prag, Tékkland > meðalverð á nótt 14.247 krónur
  8. Aþena, Grikkland > meðalverð á nótt 14.447 krónur
  9. Berlín, Þýskaland > meðalverð á nótt 14.648 krónur
  10. Dublin, Írland > meðalverð á nótt 14.648 krónur

* Miðað við miðgengi krónu gagnvart pundi 20.september 2012.