Það er nú alltaf indælt að rekast á flugtilboð hjá Wow Air undir tíu þúsund krónum eins og finna má gnótt af til margra áfangastaða flugfélagsins nú. En sú gleði kannski örlítið skammvinn þurfi fólk að komast heim til sín aftur.

Gamla, góða Köben alltaf skemmtileg heim að sækja en að komast til baka á sæmilegu verði getur verið púsl.
Gamla, góða Köben alltaf skemmtileg heim að sækja en að komast til baka á sæmilegu verði getur verið púsl.

Sem flestir þurfa jú að gera fyrr en síðar og þá vandast aðeins málið. Því oft er gígantískur verðmunur á flugi út og heim aftur. Gott dæmi um það má sjá á skjáskotum hér að neðan. Á fyrstu töflunni má sjá flug út til Köben í byrjun næsta mánaðar. Flottir prísar um allt jafnvel þó enginn farangur fylgi með. Hendum einni tösku með á lægsta fargjaldi og við sleppum samt út undir tólf þúsund krónum. Lítið hægt að kvarta yfir því.

wowkobEn við ætlum jú ekki að ílengjast í Köben til eilífðarnóns. Heimahaginn kallar og þá versnar aldeilis í því eins og sjá má á næstu töflu sem er verðlistinn frá Köben og heim í sama mánuði.

wowkobb3Í stað þess að nánast ekkert fargjald kosti meira en tólf þúsund krónur rúmar finnst varla neitt hér undir tuttugu þúsund krónum og allt upp í 30 þúsund kall. Sem er algjört okur. Enn verra að á stöku dagsetningum til baka er Icelandair að selja sæti á lægra verði en Wow Air. Allt niður í fjórtán þúsund krónur lægst og þar fylgir taska pakkanum. Sömuleiðis má finna fargjöld með SAS, sem flýgur líka beint á milli Köben og Keflavíkur, með tösku undir lægsta verði sem Wow Air býður á nokkrum dagsetningum.

Þetta þýðir bara að vilji fólk vera hagsýnt á ekki endilega að gefa sér að Wow Air sé að bjóða mest og best fyrir minnstan pening. Létt 10 mínútna leit hjá samkeppnisaðilum getur vel sparað góðan skilding og það á mörgum öðrum flugleiðum en til Köben.