Það vill stundum gleymast þegar fólk er á þvælingi um heiminn þessi dægrin að nánast hver einasta stórborg og sum krummaskuð líka eru áfangastaðir lággjaldaflugfélaga sem oft eru að bjóða aldeilis fáránlega díla.

Hægt er að fljúga um nánast allt á Íberíuskaganum fyrir fjarska lítinn pening.
Hægt er að fljúga um nánast allt á Íberíuskaganum fyrir fjarska lítinn pening.

Sem er stóri plúsinn fyrir þá ævintýraríkari sem sætta sig illa við að hanga á sama staðnum í skipulagðri hópferð vikur í senn. Það er nefninlega af sem áður var að það kostaði morð fjár og margra klukkustunda ferðalag að flakka milli borga eða landa.

Barcelona er ein þeirra borga sem vel er þjónustuð af lággjaldaflugfélögum og þaðan hægt að fara með afar litlum fyrirvara æði langt fyrir lítinn pening. Flug þaðan til Marokkó, Túnis, Ísrael, Ítalíu, Búlgaríu og Svartfjallalands svo fáein dæmi séu tekin þarf ekki að kosta manninn meira en 10 til 14 þúsund krónur aðra leiðina.

Sama gildir innanlands. Eflaust gæti einhver blótað þriggja vikna dvöl í Barcelona þegar hægt er að fljúga með mjög litlum fyrirvara til Madríd fyrir 4.500 krónur, Sevilla allt niður í 4.000 krónur og jafnvel alla leið yfir Íberíuskagann til Lissabon fyrir tæpar sex þúsund krónur. Í þessum tilfellum erum við að miða við flug með spænska flugfélaginu Vueling en innan Spánar eru bæði easyJet og Ryanair að bjóða ferðir líka og á köflum á enn lægra verði.

Vueling er líka að fljúga frá Alicante sem er helsta stopp Wow Air á Spáni. Þaðan er komist til Bilbao aðra leið fyrir rúmar fimm þúsund krónur og allt niður í 20 þúsund krónur kostar að fljúga þaðan alla leið til Tenerife svo tvö dæmi séu tekin.

Þjóðráð að hafa þetta í huga sé fróðleiksþorsti í blóðinu og ekki búið að eyða hundruð þúsunda í gistingu á sama staðnum.

Ekki hika við að hafa samband ef eitthvað. Við hjálpum ef við getum.