Rétt tæpur mánuður er nú liðinn síðan ferðaskrifstofan Gaman ferðir gaf út haust- og vetrarbækling sinn þar sem landans er freistað með tilboðum í sólina þennan veturinn. Síðan þá hefur óðaverðbólga riðið húsum hjá ferðaskrifstofunni.

Fátt að marka nýlegan ferðabækling Gaman ferða.
Fátt að marka nýlegan ferðabækling Gaman ferða.

Margt ágætt má finna í bæklingnum sem finna má hér og þar sérstaklega mikið úrval ferða og gistingar á Tenerife á heilum fjórum síðum og mörg fýsileg tilboð. Sýnu verra að ferðaskrifstofan er ekki með fast verð á flugi í ferðum sínum sem þýðir að auglýstar pakkaferðir kosta verulega mikið meira en gefið er í skyn í fyrrnefndum bæklingi. Allt að 70 prósent meira samkvæmt útreikningum Fararheill. Slík hækkun á tæpum mánuði flokkast sem óðaverðbólga.

Sem dæmi um hversu úreltur bæklingur Gaman ferða hefur orðið á aðeins fjórum vikum má til dæmis benda á að næstum helmingur þeirra tilboða sem í boði eru til Tenerife í bæklingnum finnast ekki lengur á vef Gaman ferða. Skýringin á því líklega mikil eftirspurn. En svo eru dæmi á borð við þessi:

A) Vika á Dream Villa Tagaro 1.- 8. apríl 2017. Verðdæmi í bæklingi 128.200 á mann. Raunverð nú: 208.498 á mann. 62% hækkun.

B) Vika á Las Dalias 12.-19. nóvember 2016. Verðdæmi í bæklingi 155.900 krónur á mann. Raunverð nú 170.726 á mann. 10% hækkun.

C) Vika á Aquamar 28. mars til 4. apríl 2ö17. Verðdæmi í bæklingi 119.500 krónur á mann. Raunverð nú 123.726 á mann. 3% hækkun.

D) Vika á Conquistador 1.-8. apríl 2017. Verðdæmi í bæklingi 130.900 krónur á mann. Raunverð nú 209.856 á mann. 61% hækkun.

Einhver kannski heldur að gríðarleg verðhækkun þann 1. apríl skýrist af Páskum en svo er ekki. Páskadagur 2017 lendir á 16. apríl.

Hvað sem veldur tæplega 70 prósenta hækkun á sólarlandaferðum á örskömmum tíma þá er staðreyndin sú að vel rúmlega 400 þúsund krónur fyrir vikutúr fyrir par til Tenerife á ekkert skylt við gott tilboð. Það nær því að vera okur og töluvert dýrara en pakkaferðir til sama staðar með öðrum ferðaskrifstofum á svipuðum tíma.

Þetta er allt saman undarlegt sökum þess að einn eigenda Gaman ferða á flugfélagið sem flogið er með. Hæg ættu að vera heimatökin að læsa tiltekinn fjölda sæta í pakkaferðirnar svo bæklingur Gamanmanna sé gildandi lengur en sólarhring eða svo.