Víst eru níðþröng sæti óspennandi í langflugi. Ekki skárra að hafa hné klesst upp við sætisbakið hele vejen. Og hvern hlakkar til klósettferða í háloftunum?

Góð hugmynd? Kannski og kannski ekki. Mynd Delta

Jamms, það er falinn kostnaður því samfara að negla flugmiða á tombóluverði. Því þótt miðinn kosti kannski klink og ingenting þá greiðirðu samt vel fyrir með óþægilegheitum sem eiga ekkert skylt við ljúft flug út í heim. Fátt ljúft við flug eitt né neitt þessi dægrin á almenningsfarrýmum velflestra flugfélaga.

Vitum ekki um ykkur en það er samdóma álit okkar hér að reyna eftir fremsta megni að nota ekki klósett í flugi.

Ýmsar ástæður fyrir því en þar helstar að klósett millilandavéla eru þrengri en mátunarklefar í H&M, þrif fyrir flug oft í mýflugumynd og hversu heilsusamlegt að planta rassi á setu þegar 300 farþegar hafa gengið örna sinna á sama klósetti á fáeinum klukkustundum. Helmingur þeirra oft karlmenn sem ráða misvel við bunur og spreyja þannig allan klósettklefann í einu vetfangi. Þess vegna er ljósbirta á klósettum farþegavéla lítil og léleg. Svo ekkert sé nú minnst á að reglulega berast fréttir af pörum sem finnst fátt meira spennandi en njóta kynlífs á klósettum farþegavéla.

Afar spennandi staður með öðrum orðum og með örfáum undantekningum hafa flugfélög heimsins ekki hirt um að breyta klósettum sínum að ráði. Fyrr en nú.

Skoðaðu myndina hér að ofan. Þetta er klósettið í nýrri Airbus farþegavél sem bandaríska flugfélagið Delta tekur í notkun á næstunni. Það kannski ekkert mikið stærra en venjulega en aldrei áður hefur flugfélag boðið upp á klósett með glugga og þar með mögulega útsýni ef himinn er heiður.

Hugmyndin fræðilega fín en hér hængur á. Í dagsljósi verða allar slettur og vibbi töluvert augljósari en ella er raunin og nokkuð ljóst að flugþjónar þurfa að fjölga hreinsiferðum á klósettin. Ekki síður er líklegt að fúlir farþegar í miðjusæti með ekkert útsýni komi sér bara fyrir á klósettinu löngum stundum. Það er jú minna þröngt þar en í venjulegu sæti.

Samt, framför frá því sem verið hefur 🙂