Það er varla fréttnæmt lengur þegar lönd eða staðir ákveða að leyfa sölu kannabis til Jóns og Gullu Almúgafólks. Þeim fjölgar jú hægt og bítandi alls staðar. Og nú hefur „sjöunda“ stærsta ríki heims slegist í þann hóp eins og það leggur sig.

Jónur af ýmsum gerðum og styrkleikum fást nú næsta auðveldlega í Kaliforníu líka.

Ríki er reyndar ofmælt í þessu tilviki því Kalifornía er ekki þjóðríki heldur tæknilega eitt af fylkjum Bandaríkjanna. En Kaliforníuríki eitt og sér er líka sjöunda stærsta hagkerfi heimsins og hið langstærsta í Bandaríkjunum. Og þar má nú kaupa kannabis eins og bleyjur út í næstu verslun.

Lög þessa efnis tóku gildi um áramótin og með þeim slóst Kalifornía í hóp fylkja á borð við Kolóradó, Alaska, Maine, Massachusetts, Oregon, Nevada og Washington þar sem sala og neysla kannabisefna er lögleg. Þess utan hafa ellefu önnur ríki afglæpavætt neyslu slíkra efna þó ekki sé þar mögulegt að selja efnin löglega.

Góðar fréttir fyrir þau okkar sem njóta góðrar jónu á síðsumarkvöldi. Ekki hvað síst vegna þessa að héðan er flogið rakleitt til San Francisco og Los Angeles og því hæg heimatökin fyrir þá sem áhuga hafa.