Mjög er deilt um siðferði þess að bjóða ríkum erlendum ferðamönnum upp á skoðunarferðir um fátækrahverfi í hinum ýmsu borgum heims. Skiptir þá engu hvar er; Kalkútta á Indlandi, Jakarta í Indónesíu, Algeirsborg í Alsír eða Ríó de Janeiro í Brasilíu.

Ólíkt fátækrahverfum annars staðar er þau í Ríó oftar en ekki með algjörlega frábært útsýni.
Ólíkt fátækrahverfum annars staðar er þau í Ríó oftar en ekki með algjörlega frábært útsýni.

Í öllum ofantöldum borgum býðst áhugasömum, gegn vænni greiðslu, að rúnta um „öruggari“ staði í fátækrahverfum. Sums staðar er einnig í boði að stoppa og labba aðeins um í fylgd og á einstöku stað er meira að segja í boði að gista eina nótt.

Það er til dæmis hægt í minnst þremur fátækrahverfum, favelas, í Ríó í Brasilíu.

Það er ekki alveg sáraeinfalt að gera. Það er jú ekki eins og hægt sé að biðja næsta leigubílstjóra um skutl því þangað fara þeir ekki. Aðeins er hægt að gista á slíkum stöðum gegnum sérstaka ferðaskrifstofuaðila.

Þar er greitt fyrir herlegheitin fyrirfram og þegar einn úr ritstjórn Fararheill eyddi nótt í Cantagalo, favela mitt á milli Ipanema og Copacabana, árið 2007 var bæði gert upp fyrirfram og skrifað undir sérstakt skjal sem aflétti öllum skyldum af viðkomandi ferðaþjónustuaðila. Maður var með öðrum orðum algjörlega á eigin vegum og eigin ábyrgð. Engin trygging dekkar dvöl í favela.

Ein nótt þar nægði því þótt lítið væri út á gistihúsið að setja þó einfalt væri var svefnfriður ekki mikill og húsfreyjan þvertók fyrir að gestir færu út fyrir hús eftir klukkan tíu um kvöldið. Það var ennfremur tekið fram í samningnum sem gerður var fyrirfram. Fram að þeim tíma var í lagi að vera úti á verönd en ekki fara lengra. Af veröndinni var hins vegar ekkert minna en stórkostlegt útsýni.

Friðurinn var þó ekki rofinn af skothríð eða skelfingarópum eins og kannski búast mátti við heldur dunandi útidiskóteki en slíkt er gjarnan sett upp á hinum og þessum smærri torgum um helgar. Þess utan var ekki einfalt að festa svefn því hitinn var kæfandi og engin var viftan eða kaldur klaki til að létta þunga byrði.

Við tökum þó eftir að samkvæmt vef Pousada Cantagalo hefur þetta breyst töluvert. Þar eru nú viftur, morgunverður í boði og meira að segja þráðlaust net. Ekkert af því var mögulegt 2007.

Reynslan var samt þess virði og síðan þetta var hefur Cantagalo hverfið fengið svokallaðan lögverndarstimpil sem merkir að hér eru löggæslumenn á ferð reglulega. Slíkt er ekki reglan í fátækrahverfum Brasilíu. Minnst þrjú önnur fátækrahverfi hafa fengið slíkan stimpil og hafa orðið mun öruggari fyrir vikið þó ekki sé hægt að segja að þau sé örugg.

Við mælum með að prófa fyrir þá forvitnustu en aðrir forvitnir ættu að láta nægja bíltúr.

Þrjú gistihús í „öruggari“ fátækrahverfum Ríó eru Favela Receptiva, Pouseda Favelinho og Pousada Favela ContagaloVerð á nótt ætti allavega ekki að fæla frá þó hverfið kannski geri það. Herbergi eina nótt kostar frá 1.900 krónum og upp í tæpar fimm þúsund yfir háannatíma.