Blindfull manneskja yrði fljótt edrú af því að bera saman flugfargjöld lággjaldaflugfélaganna Wow Air og Norwegian frá Keflavík til Alicante og heim aftur. Bæði flugfélög kalla sig lággjaldaflugfélög en himinn og haf er á kostnaðinum per haus.

Alltaf ljúft að dvelja undir sólinni í Alicante. En þangað er mun dýrara að fljúga með innlendum flugfélögum.

Það eru varla fréttir fyrir hugsandi Íslendinga að „lággjaldaflugfélag“ okkar Íslendinga, Wow Air, er að okra fram úr hófi á landanum samanborið við flugfargjöld norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian sömu leiðina sömu mánuði. Þetta kemur glögglega fram í könnun Fararheill á lægstu fargjöldum beggja aðila til Alicante og heim til Keflavíkur aftur næstu fjóra mánuði. Verðmunurinn á allra ódýrustu fargjöldum er ekki nema rúm 140 PRÓSENT!!!

Það er smekklegt (ekki) en kemur ekki á óvart enda fyrirtæki okrað á landanum frá því að Hrafna-Flóki felldi sitt fyrsta tré. Er ekki Hagkaup að selja norskan klaka á sama verði og íslenskan klaka þrátt fyrir að forstjóri Haga haldi fram að sá norski sé 40% ódýrari en sá íslenski…

Í öllu falli komast Íslendingar á miklu lægra verði til Alicante með Norwegian en Wow Air í nóvember, desember, janúar og febrúar. Eflaust lengur en það en við könnuðum lægsta verð aðeins fram í febrúar.

Í ljós kemur að allra ódýrasta fargjald Wow Air til Alicante og heim aftur í nóvember kostar 38.997 krónur. Lægsti prísinn þann mánuð með Norwegian er 16.170 krónur. Þar munar 141 prósenti.

Ef þú elskar Alicante í desember kostar að lágmarki 38.977 krónur þangað og heim með Wow Air. Ef þú bókar hjá Norwegian kostar sami pakki 16.130 krónur.

Ókei! Kannski bara tilviljun. Kíkjum á janúar og febrúar…

Þá kemur í ljós að allra lægsta fargjald Wow Air fram og aftur til Alicante í janúar kostar manninn 23.977 krónur. Ekki slæmt þangað til þú kíkir á vef Norwegian. Þar kostar sami pakki að lágmarki 16.130 krónur. Það, ef okkur var kennd rétt stærðfræði í denn tíð, er munur upp á 49%.

En febrúar? Er það mánuðurinn sem Wow Air tekur sér tak?

Neibbs. Lægsta fargjald með Wow Air, án alls, þann mánuð kostar þegar þetta er skrifað 16.977 krónur. Aldrei þessu vant er lægsta fargjald Norwegian ekki langt frá en samt lægra eða 16.130 krónur.

Erum við ekki flest að vinna of mikið fyrir lágum launum? Þess vegna ættum við að eiga viðskipti við þau fyrirtæki sem lægst bjóða fyrir góða vöru 🙂

* Könnun gerð kl. 21 þann 23. október 2017 hjá báðum flugfélögum samtímis. Lægsta verð í boði í hverjum mánuði fyrir sig. Ekkert innifalið.