Skip to main content
Tíðindi

Norwegian hyggst fjölga ferðum til Íslands

  16/08/2012No Comments

Lágfargjaldaflugfélagið Norwegian hyggst fjölga ferðum sínum til Íslands á næsta ári. Forráðamenn flugfélagsins eru himinlifandi með undirtektir ferðafólks milli Keflavíkur og Osló og leiðin atarna ein sú allra vinsælasta af þeim nýju leiðum sem flugfélagið bauð upp á þetta sumarið.

Ferðum Norwegian til Íslands fjölgar næsta sumar. Mynd af vef Isavia

Þetta hefur Fararheill.is fengið staðfest hjá þeim norsku en flugfélagið er á tiltölulega skömmum tíma orðið eitt allra stærsta flugfélag Evrópu og nýliðinn júlí flutti Norwegian metfjölda farþega þegar 1.8 milljónir manns flugu í vélum þess.

Þetta sumarið hefur Norwegian flogið milli Keflavíkur og Osló í Noregi þrívegis í viku og framhald verður á því í vetur.

Er vert að hafa í huga fyrir þá sem skipuleggja sín eigin frí og ferðir að úrval ferða með Norwegian frá Osló til fjölmargra áfangastaða er frábært og verðlag yfirleitt í betri kantinum. Því ekki síðri kostur að fljúga til Osló til að ná tengiflugi áfram en að brúka London eins og velflestir gera.