Norska flugfélagið Norwegian hyggst brjóta blað því nú er verið að setja búnað í allar vélar þess sem gefur farþegum færi á að tengjast netinu í flugi og það ókeypis út þetta ár. Er Norwegian þannig fyrsta evrópska flugfélagið sem þetta býður í öllum sínum vélum en allnokkur önnur eins og Virgin bjóða slíkt á ákveðnum leiðum og aðeins í tilraunaskyni.

Verkinu lýkur reyndar ekki að fullu fyrr en í mars á næsta ári en fyrsta vélin með internetaðgangi fer í loftið í lok þessa mánaðar og ellefu aðrar vélar flugfélagsins hafa þennan búnað fyrir næsta sumar.

Fararheill.is hefur forvitnast hjá íslensku flugfélögunum hvort til standi að setja slíkt upp í vélum Iceland Express eða Icelandair. Skemmst er frá að segja að Iceland Express hefur engu svarað en hjá Icelandair fengust þau svör að þetta væri í skoðun.