Rúmar þrjár vikur eru síðan lágfargjaldarisinn Norwegian hóf flug milli Osló og Keflavíkur í samkeppni við Icelandair og SAS. Fargjöld þess norska til og frá landinu með litlum fyrirvara eru nokkur vonbrigði og í júlí býður Icelandair á köflum svipað og Norðmennirnir. Þá eru engin fargjöld í sumar í nánd við þær 399 norsku krónur sem allra ódýrasta flugfarið átti að kosta samkvæmt talsmanni Norwegian í vetur sem leið.

Forráðamenn Norwegian vildu meina að ódýrustu fargjöldin aðra leið til eða frá Íslandi fengust á 399 norskar krónur. Hvergi finnst neitt ódýrar en um 800 krónur aðra leiðina nú í sumar. Mynd af vef Keflavíkurflugvallar

Kannaði Fararheill hvað það kostaði manninn að fljúga með litlum fyrirvara til Osló og til baka. Lægsta fargjald Norwegian báðar leiðir í júlí í boði fannst 5. til 17. júlí og kostar manninn 50.228 krónur plús farangursgjald.

Í ágúst býður Norwegian best 34.260 krónur plús farangursgjald samkvæmt gengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri norsku.

Eins og ritstjórn veðjaði á fyrir nokkrum mánuðum síðan hefur Icelandair lækkað ákveðin fargjöld sín á þessari leið sem hið íslenska flugfélag hefur einokað undanfarin ár að mestu leyti. Í júlí, 6. til 12., finnast ódýrustu fargjöld þess flugfélags á 57.050 krónur en í ágúst er prísinn lægstur 57.350 krónur þann 5. til 16. ágúst. Munar töluverðu þar Norwegian í hag.

Má ljóst vera að sé fyrirvarinn stuttur er verðlag Norwegian ekki endilega betra en annarra flugfélaga sem ekki titla sig lágfargjaldaflugfélög og í raun aðeins hægt að negla góðan díl með fyrirvara.

Er það í stíl við önnur lágfargjaldaflugfélög heimsins hvers fargjöld hækka jafnt og þétt er nær dregur fluginu.

Það er hins vegar fjarri lagi að á vef Norwegian finnist fargjöld á 399 krónur norskar sem átti að vera allra ódýrasta fargjaldið í boði þetta sumarið samkvæmt talsmanni félagsins í vetur. Billegasta farið aðra leiðina í júlí kostar 1051 norska krónu og 599 norskar ódýrast í ágúst. Sé leitað lengra finnst ekkert undir 491 norskri krónu, 10.322 íslenskar, alveg fram til desember.

* Miðað við meðalgengi kl 18 þann 25. júní 2012. Hafa skal í huga að fargjöld á vefum flugfélaganna breytast ört.

Heimasíða Norwegian hér.

Heimasíða Icelandair hér.