Oft er sannleikurinn súr. Börn hins vestræna heims verða nú að hætta að senda póst á jólasveininn á Norðurpólnum. Ekki aðeins er hann löngu dauður heldur og gaf skít í kulda og trekk norðurslóða fyrir sól og sjarma í Antalya í Tyrklandi.

Bjó jólasveinn hér? Kirkja heilags Nikulásar í Demre í Antalya. Undir gólfinu telja fornleifafræðingar að jólasveinninn sjálfu hvíli hinstu hvílu. Mynd TurkeyforLife

Heilagur Nikulás heitir dýrlingurinn sem talinn er vera fyrirmynd þess sem nútímafólk kallar Jólasveininn eina sanna. Nikulás er tæknilega aðeins verndari sjómanna og barna samkvæmt trúarritum en einhvers staðar á leiðinni komst kappinn í álnir sem jólasveinn vestrænna byggða. Jólasveinn sem ferðast um loftin blá á hreindýrum og treður sér niður strompa til að gefa börnum gjafir.

Engum sögum fer af hvernig kappinn fer að nú þegar engir strompar finnast á 99% heimila í hinum vestræna heimi. En það eru hins vegar fréttir að fornleifafræðingar telja sig hafa fundið grafreit jólasveinsins atarna og það í bænum Demre í Antalya-héraði í Tyrklandi.

Það meikar sens að okkar mati. Hvers vegna ætti þybbinn barnavinur að framleiða tugþúsundir tonna af leikföngum og gotteríi í nístingskulda og trekki á Norðurpólnum. Öllu meira næs að njóta yls og sólar við verkið við Miðjarðarhafið.

Að gamni slepptu segjast fornleifafræðingar nokk vissir um að hafa fundið gröf heilags Nikulásar undir kirkju einni í tyrkneska bænum Demre í um klukkustundar fjarlægð til suðurs af borginni Antalya sem margir Íslendingar þekkja. Jafnvel þó Nikulás þessi sé ekki jólasveinninn sjálfur er um mikinn fund að ræða og morgunljóst að ferðalangar til Antalya geta í framtíðinni barið augum grafreit, og mögulega leifar, eins helsta dýrlings rómversku kirkjunnar.

Ekki slæmur díll það.