Skammt er síðan ferðaskrifstofan Wow Air fékk loks flugrekstrarleyfi með formlegum hætti en fyrirtækið var reyndar löngu fyrir þann tíma farið að kalla sig flugfélag og það fólksins í þokkabót. Boston er fyrsti áfangastaður hins nýja flugfélags og gott eitt um það að segja. Þar er Wow þó að fara í dálítið stóra skó.

Algengt tilboðsverð á flugi Iceland Express til Boston var kringum 22 þúsund krónur aðra leið. Hvað býður Wow Air?
Algengt tilboðsverð á flugi Iceland Express til Boston var kringum 22 þúsund krónur aðra leið. Hvað býður Wow Air?

Fyrir utan þá staðreynd að Icelandair flýgur til og frá Boston reglulega er ekki langt síðan Iceland Express bauð flug þangað líka þegar það fyrirtæki var og hét.

Það er af hinu góða að samkeppni komist á á þessari flugleið enda ritstjórn Fararheill búin að reikna út að sértilboðum Icelandair til Boston eftir að Iceland Express hætti keppni hefur fækkað um 25 prósent um það bil.

En það eru engar fréttir að samkeppni sé af hinu góða.

Það sem kannski verður forvitnilegast að sjá þegar Wow Air setur ferðir til Boston í sölu er verðið. Iceland Express, þrátt fyrir alla galla þess fyrirtækis, bauð nefninlega æði vel á köflum til Boston og seldu miða aðra leið allt niður í sextán þúsund krónur þegar best lét. Algengt tilboðsverð Iceland Express til Boston var milli 22 og 24 þúsund aðra leið.

Hér skal hafa í huga að hjá Iceland Express var ekki greitt gjald fyrir farangur. Og þar sem meginþorri Íslendinga sem til Boston fara eru að fylla töskur af ódýrum varningi skiptir það töluverðu máli.

Fararheill hefur áður sett stórt og mikið spurningarmerki við að Wow Air sé lággjaldaflugfélag eins og það er titlað. Verðlag þeirra er of oft mun nær því sem gerist hjá hefðbundnum flugfélögum. Hyggist Wow smella út ferðum til Boston hátt yfir 25 þúsund krónum aðra leið má grafa þann stimpil endanlega að okkar mati.

Við bíðum spennt.