DV greindi frá því nýlega að stjórnarformaður Icelandair, Sigurður Helgason, hefði hlaupið frá 2,5 milljarða króna skuld sinni en ekki ein króna fékkst upp í kröfur í einkahlutafélag hans Skilding við gjaldþrotaskipti fyrir skömmu. Þetta er sami Sigurður Helgason og rekinn var með skít og skömm úr stjórn flugfélagsins Finnair fyrir ári síðan fyrir að leyna himinháum bónusgreiðslum til forráðamanna þess félags.

Forstjóri og stjórnarformaður Icelandair. Þeir maka krókinn og flugfargjöld hækka jafnt og þétt
Forstjóri og stjórnarformaður Icelandair. Þeir maka krókinn og flugfargjöld hækka jafnt og þétt

Það er dálítið merkilegt hvað lítið hefur breyst á klakanum í kjölfar þess að landið fór tæknilega á hausinn árið 2008. Sama gengi aldraðra hvítra karlmanna hanga á sömu akfeitu bitunum nú og þá og illu heilli virðist almenningur haldinn alzheimer forte og vera nokk sama. Sama gamla farið og setti land og þjóð á hausinn virðist vera hið besta mál fimm árum síðar.

Sigurður þessi hefur undanfarin misseri keypt prívat og persónulega hlutabréf í Icelandair og það alfarið athugasemdalaust eftir því sem næst er komist. Ekkert að því að kaupa bréf í fyrirtækjum en Sigurður er ekki bara með innherjaupplýsingar heldur setur stefnuna hjá fyrirtækinu. Hann kaupir mörgum mánuðum áður en ákveðið er að fjölga leiðum og bæta í flotann sem auðvitað er til þess fallið að hækka verð á bréfum samstundis. Fyrir utan auðvitað að Sigurður sá fljótt til þess að stjórn Icelandair hækkaði eigin laun sín fyrir stjórnarsetu um tæplega 60 prósent á einu bretti árið 2012. Mánaðarlaun hans fyrir að sitja einn og einn fund nemur hálfri milljón króna eða rösklega sama upphæð og þrír atvinnulausir einstaklingar hafa yfir sama tíma. Hér má ekki gleyma að Framtakssjóður Íslands í eigu lífeyrissjóðanna, með öðrum orðum okkar, á stóran hlut í Icelandair og sá eignarhlutur er meginástæða þess að Icelandair fór ekki yfir um við efnahagshrunið.

Níu mánuðum eftir að hafa hækkað eigin laun sín um tæp 60 prósent keypti Sigurður hluti í Icelandair fyrir 23 milljónir. Með þeim kaupum átti hann bréf fyrir 80 milljónir króna í fyrirtækinu. Nokkru síðar tilkynnti flugfélagið um nýja áfangastaði og aukin umsvif. Bréfin fóru upp á við. Í febrúar kaupir Sigurður meira og nam þá markaðsvirði hans hlutar 150 milljónum króna. Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins allt að því tvöfaldast og hlutur Sigurðar stjórnarformanns því orðinn, án þess að hann hafi lyft litla fingri, vel rúmar 300 milljónir að minnsta kosti.

Sami Sigurður Helgason og henti einkahlutafélagi sínu fyrir róða með tilheyrandi kostnaði og var rekinn frá virtu norrænu flugfélagi er því að moka inn seðlum hjá stærsta flugfélagi Íslands á sama tíma og ferðaþjónusta er sögð vera að skáka sjávarútvegi sem helsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Sigurður hlær í bankanum á Seltjarnarnesinu og nýtur lífsins í lúxusíbúð sem hann er sagður eiga á Manhattan.

Hversu siðlegt er að hafa slíkan stjórnarformann og hvers vegna finnst lífeyrissjóðum landsins þetta hið besta mál?

Björgólfs þáttur Jóhannssonar

Víkur þá sögunni að forstjóra Icelandair, Björgólfi Jóhannessyni. Sá hefur staðið vaktina ágætlega og nýtt kauprétti á bréfum aftur og aftur og það á sérkjörum. Hann hefur því líka fitnað tvöfalt á bréfum sínum árið 2013. Fyrir utan fjögurra milljóna króna mánaðarlaun sín auðvitað sem eru ígildi mánaðarlauna tíu lægst borguðu starfsmanna flugfélagsins.

Fyrir utan þennan Enron-hugsunarhátt forstjórans að hann sé tíu manna virði á forstjórastóli er öllu verra að sami Björgólfur er lykilmaður í Samtökum atvinnulífsins. Þeim sömu og hugnast ekki að greiða þeim lægst launuðu merkileg laun í kjarasamningum. Þeim sömu og bjóða þeim er varla eiga til hnífs og skeiðar og búa í bílum og kompum í iðnaðarhúsnæði um allt land heilar tíu þúsund krónur ofan á lægstu laun.

Björgólfur hlær líka í bankanum og hefur eflaust fengið heimboð á Manhattan annars lagið.

Okkar þáttur fólksins

Fararheill gæti skrifað nokkrar bækur um fyrirtækið Icelandair. Við gætum minnt á að flugfélagið hafnar yfirleitt öllum bótakröfum neytenda og tapar þeim næstum alltaf vegna slælegrar þjónustu. Við gætum minnt á að Icelandair rekur einn allra elsta flugflota í hinum vestræna heimi. Við gætum minnt á Icelandair er að mestu sama um Íslendinga og hending að fyrirtækið bjóði upp á ferðir sem henta heimafólkinu. Ekki Anchorage, Edmonton, Halifax né Zurich hafa nokkurn tímann verið á topplistum íslenskra ferðalanga. Þeir fljúga ekki einu sinni til stærstu Íslendingabyggðar utan landsteinanna í Alicante.

En neytendur geta haft áhrif ef fólk nennir og vill. Við gætum refsað flugfélaginu fyrir að forstjóri þess sýnir launþegum landsins puttann í kjaraviðræðum. Það yrði eftir því tekið ef ALLIR færu nú að fljúga með Wow Air, easyJet, Norwegian, AirBerlin, Delta, Transavia eða öðrum þeim flugfélögum sem hingað fljúga reglulega.

Það yrði líka hreint ágætt fréttaefni fyrir erlenda miðla ef það fréttist að engir Íslendingar ferðist með flugfélaginu sem ber nafn landsins.

Þá kannski minnkar brosið í bankanum örlítið.

lifið heil

ritstjórn Fararheill

One Response to “Nokkrar góðar ástæður til að hætta viðskiptum við Icelandair”

  1. þór Skjaldberg,

    Enda auglýsa þessir snillingar í DV að þeir séu saman saumaðir.