Það má vera að þú kannist við staðina. Badabing, Barone Sanitation, Pizzaland að ógleymdum The Muffler Man. Allt eru þetta þekktir staðir úr hinum vinsæla þáttaröðum um Sopranos fjölskylduna sem lengi voru vinsælir. Um leið eitt það fáa sem gerir það athyglisvert að heimsækja New Jersey.

Einn helsti áfangastaður Tony´s Sopranos var strippbúllan Badabing sem í raun heitir Satin Dolls.
Einn helsti áfangastaður Tony´s Sopranos var strippbúllan Badabing sem í raun heitir Satin Dolls.

Fyrir þá sem féllu í landafræðinni í denn er New Jersey fylkið bókstaflega næsti bær við New York þar sem standa borgirnar Jersey City og Newark svo aðeins tvær séu nefndar. En ólíkt þeirri síðarnefndu þá voru og eru borgir New Jersey mikið til aðeins ódýr verkamannahverfi; svefnborgir fyrir fólk sem mikið til starfar í New York eða Philadelphiu. Nokkurs konar Breiðholt fyrri tíma ef svo má að orði komast.

Fylkið hefur aldrei komist á lista yfir merkilega áfangastaði ferðamanna heldur þvert á móti. New Jersey hefur verið valin eitt ljótasta fylki Bandaríkjanna og í þeirri keppni ekki lítið um samkeppnisaðila. Svæðið gengur stundum undir nafninu „handarkriki Bandaríkjanna“ sem ætti að segja eitthvað. Ekki svo að skilja að allt sé hér dapurt og drungalegt; meira að fátt er að sjá og enn minna að upplifa.

En það er túr einn í boði frá New York sem er ár eftir ár meðal allra vinsælustu dagsferða frá borginni þar sem New Jersey er aðalsöguhetjan. Það er Sopranos túrinn.

Merkilegt kann einhver að segja enda langt síðan þeir þættir voru vinsælir en vinsældirnar haldast ár frá ári. Í það minnsta varðandi túrana þar sem ekið er um alla þá staði sem við sögu komu í þáttunum vinsælu og eru allir í New Jersey. Flott hugmynd fyrir aðdáendur en þó varla fyrir aðra. Kannski hugmynd að senda karlinn í túr meðan þú verslar eitthvað fokdýrt á 5th Avenue 😉