Skip to main content

Wow Air, eða öllu frekar Skúli Mogensen og félagar í stjórn flugfélagsins, beitir ýmsum trixum til að fá þig til að láta peninga af hendi. Til dæmis með því að greiða aukalega fyrir sérstakt sæti.

Ýmis trix notuð til að fá þig til að láta fé af hendi. Skjáskot

Ýmis trix notuð til að fá þig til að láta fé af hendi. Skjáskot

Flestum ætti að vera ljóst nú að Wow Air heimtar aukagjald fyrir allt undir sólinni í flugi nema klósettferð og hver veit nema það kosti innan tíðar að létta á sér líka.

Hjá Wow Air er hægt að bóka sæti sérstaklega og það í boði strax og búið er að velja flug á vef flugfélagsins. Þá birtist úrval möguleika eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti.

Deila má um hvort þetta sé sniðugt eður ei. Fjölskyldur eða vinahópar vilja að sjálfsögðu sitja saman ef möguleiki er á og hjá Wow Air þá kostar það mange extra penge.

Allt í góðu. Það er partur af programmet hjá Skúla að viðskiptavinir pungi út til að njóta samvista við sína nánustu í flugi. En gallinn sá að flugfélagið beitir töluverðum blekkingum líka. eins og sjá má á þessu skjáskoti hér.

Það virðist ekki vera neitt sæti í boði sem ekki kostar neitt.

Það virðist ekki vera neitt sæti í boði sem ekki kostar neitt.

Ef grannt er skoðað virðist EKKERT sæti ókeypis í vélinni. Öll sæti hafa lit og allir litir hafa ákveðið verð. Sá sem ekki veit betur gæti haldið að sæti kosti aukalega ofan á verð flugmiðans.

Fararheill veit af fólki sem lætur blekkjast af þessu og greiðir aukalega fyrir sæti. Vegna þess að hvergi er bent á að kaupi fólk EKKI sæti þá fær það samt sæti í vélinni við innritun. Það er ekki eins og þú verðir skilinn eftir eða standir á leiðinni eins og stöku einstaklingar sem við höfum hitt hafa talið.

Ef ekki er brýn þörf að sitja við hlið vina eða ættingja eða þú ert að ferðast ein eða einn þíns liðs þá flettir fólk bara áfram hér ÁN þess að bóka sérstakt sæti.

Allnokkur ár eru síðan Airberlin fékk ákúrur fyrir svipaða viðskiptahætti og hætti því strax. En hér á klaka er enginn að fylgjast með neinu sem þýðir að vasar Skúla Mogensen fitna hraðar en Sigmundur Davíð eftir að hann hætti á Skyrkúrnum.

En sem sagt: þú þarft EKKI að kaupa sæti frekar en þú vilt. Góða ferð og komið heil heim. Og ekki láta plata ykkur 🙂