Er Icelandair að verða nasistaflugfélag? Þá ályktun dregur ritstjórn af undarlegri frétt á vef Morgunblaðsins sem reyndar er hræðilega illa skrifuð og vekur upp mun fleiri spurningar en hún svarar.

Áhöfn og farþegar Icelandair réðust á mann sem stóð upp við lendingu samkvæmt fregn Morgunblaðsins

Fyrirsögnin er afar krassandi vægast sagt: „Farþegi stóð upp í lendingu“ en fréttin greinir frá því að áhafnarmeðlimir og farþegar hafi þurft að þvinga einn farþega Icelandair til að setjast við lendingu í Keflavík fyrr í dag!!!

Það var nefninlega það. Skoðum fréttina.

Farþegar og áhöfn um borð í flugvél Icelandair yfirbuguðu karlmann sem stóð upp skömmu áður en vélinni var lent á Keflavíkurflugvelli. Manninum var haldið í sæti sínu þar til flugvélin var komin upp að flugstöðvarbyggingunni. Þetta staðfestir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair. Vélin var að koma frá Washington í Bandaríkjunum. Ekki liggur fyrir hvað maðurinn ætlaði sér með að standa upp á þessum tímapunkti en lögregla tók á móti honum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og var tekin af honum skýrsla. Verið er að kanna hjá Icelandair viðbrögð fyrirtækisins og næstu skref.

Annaðhvort vantar heil ósköp í þessa frétt ellegar að áhöfn Icelandair er farin að beita harkalegum aðferðum við minnsta hósta frá viðskiptavinum sínum. Það eru jú engin lög gegn því að standa upp í lendingu. Reglur já en lög nei.

Var maðurinn með læti? Var maðurinn að ógna öðrum? Ógnaði það öryggi vélarinnar að hann stóð upp? Eða var hann kannski aðeins að rétta úr sér því hann var með krampa í fótum? Og hvers vegna þarf áhöfnin að fá hjálp farþega til að fá manninn í sæti sitt?

Sé sökin aðeins sú að hafa staðið þá eru nú væntanlega nokkrir aðrir farþegar og áhöfn Icelandair sek um það sama því til að halda manninum í sæti sínu hafa viðkomandi líklega þurft að standa líka?

Ekki á það bætandi nú þegar meðferð flugfélagsins á svokölluðum flugdólg um daginn varð fréttaefni í velflestum fjölmiðlum heims.