Par eitt sem hugðist komast í svokallaðan háloftaklúbb, mile-high club, þeirra sem stundað hafa kynlíf í háloftunum og brúkaði til þess eitt salerni farþegaflugvélar var handtekið eftir að flugstjórinn ákvað nauðlendingu eftir að farþegar fóru að óttast það hversu lengi salernið var upptekið.

Engin lög eru gegn því að njóta ásta um borð í farþegavélum en velflest flugfélög meina tveimur einstaklingum að fara saman á salerni í flugi. Mynd Duncan Creamer
Engin lög eru gegn því að njóta ásta um borð í farþegavélum en velflest flugfélög meina tveimur einstaklingum að fara saman á salerni í flugi. Mynd Duncan Creamer

Eins og hræðslugjörnum Bandaríkjamönnum er tamt orðið kallaði flugstjóri til orrustuþotur eftir að ekki gekk að fá fólkið út af klósettinu í hita leiksins en farþegar þóttust vissir um að hryðjuverk væru í undirbúningi bak við luktar dyr salernisins.

Fylgdu því tvær F15 orrustuþotur farþegavélinni á næsta flugvöll þar sem ástleitið parið fékk lögreglufylgd út af flugvellinum.

Hefur atvikið vakið athygli vestanhafs og víðar og ekki síst fyrir þá sök að flugþjónar eiga að hafa lykla og geta opnað salerni vandræðalaust í farþegavélum. Var það þó ekki gert í þessu tilfelli.

Fjallar vefmiðillinn Slate meðal annars um þennan gjörning og aðrar slíkar uppákomur í athyglisverðri grein.

En þetta vekur líka aðrar spurningar. Hvers á farþegi með akút niðurgang að gjalda ef hann einokar salerni í lengri tíma? Storma flugþjónar inn eða bíður hans kæra þegar og ef flugstjórinn ákveður að nauðlenda rellunni?

Fararheill forvitnaðist hjá Icelandair hvernig á það væri litið ef tveir einstaklingar færu saman á salerni í flugi.Um það gilda engar sérstakar reglur en horft væri til siðgæðis- og öryggisþátta ef slíkt kæmi upp.