Gegnum tíðina hafa kirkjugarðar oftar en ekki verið nánast heilagir staðir þar sem gestir labba nánast um á tánum til að trufla ekki hina látnu og jafnvel lítið hóstakast litið hornauga af þeim allra afturhaldssömustu. En ekki lengur.

Á ýmsum stöðum í Bandaríkjunum njóta viðburðir í kirkjugörðum vaxandi vinsælda. Mynd Bill Ilott
Á ýmsum stöðum í Bandaríkjunum njóta viðburðir í kirkjugörðum vaxandi vinsælda. Mynd Bill Ilott

Í það minnsta ekki vestanhafs í Bandaríkjunum þar sem líf og læti í gömlum kirkjugörðum er að ná helst til miklum vinsældum að mati afturhaldsseggja.

Víða í landinu er vaxandi hreyfing sem telur að vart séu til betri staðir til að njóta leiksýninga, tónleika og smærri viðburða en einmitt kirkjugarðar. Og furðu lítið fer fyrir mótmælum vegna þessa.

Einn þeirra kirkjugarða sem leiðir þessa bylgju er Mount Auburn kirkjugarðurinn í Cambridge í Massachusetts í úthverfi Boston.

Forráðamenn hans segjast við dagblaðið Boston Globe vera mjög fylgjandi því að fá meira líf í fallegan garðinn en þess sé gætt að ró hinna 97 þúsund sem þar liggja sé ekki trufluð. Þar telja menn það ekki truflun að setja upp tónleika í litlu rjóðri né heldur að hópur áhugamanna um ljósmyndun þvælist um og taki myndir. Þá eru forráðamenn alls óhræddir að leigja út stóra skika kringum legstaði undir öllu líflegri veislur á borð við afmælisveislur og oftar en einu sinni hafa heilu brúðkaupin verið færð út undir bert loft ef veður leyfir.

Það er því kannski ráð í framtíðinni fyrir ferðafólk að kynna sér viðburði í hinum ýmsu kirkjugörðum ekki síður en á torgum og götum ef áhugi er á erlendum stemmara.