Hundruð þúsunda starfsmanna ferðamálaráða hist og her í heiminum hafa undanfarin klórað sér í haus til blóðs við að spá í hvað tekur við þegar (og ef) það tekst að ná böndum á ungfrú kórónu. Mun fólk vilja ferðast og ef svo vill fólk þá sömu upplifun og áður?

23 milljónir ferðamanna heimsóttu höfuðborg Tælands 2019. Ef hver og einn eyðir 50 þúsund kalli eða svo er auðvelt að reikna að tapið bara þar er svakalegt. Skjáskot

Þetta stórar pælingar enda víðast hvar um stórar peningaupphæðir að ræða. Þó Frakkar lifi sennilega sæmilega án þess að trekkja til sín metfjölda ferðamanna ár hvert verður hið sama ekki sagt um staði eins og Balí þar sem 50% allra tekna á eynni koma frá ferðafólki. Á Flórídaskaga starfa 26% vinnuafls með beinum eða óbeinum hætti við ferðamennsku. Yfirvöld í Sádí-Arabíu eru að eyða hundruðum milljarða til að gera landið að næsta mekka fyrir alla ferðamenn og hafa hugsað sér að lifa á því þegar olíuna þrýtur. Nánast eini bisnessinn á Maldíveyjum sem borgar meira en tíkall á tímann er ferðaþjónusta. Á Íslandi hefur ferðaþjónusta orðið máttarstólpi atvinnulífsins á sirka sex mínútum sléttum. Og svo framvegis og svo framvegis.

Enginn veit sína framtíð

Nokkra punkta þarf að hafa bak eyra við slíkar pælingar:

A) Mun fólk ferðast áfram eins og faraldurinn hafi ekki átt sér stað?

B) Mun fjöldi ferðamanna halda sér, aukast eða minnka?

C) Mun ferðafólk hafa jafn mikið milli handa og eyða jafn miklu og fyrir faraldur?

Við hér hjá Fararheill höfum okkar skoðanir á ofangreindu en byrjum á að líta til ferðamálaráðs Indónesíu. Þar á bæ þykjast menn vissir um að ferðafólk framtíðarinnar hafi mun minni áhuga á troðnum fjölförnum stöðum á borð við Balí. Áhuginn á stöðunum ekkert minnkað per se en áhuginn að vera í mikilli nánd við tugþúsundir annarra við hvert fótmál er öllu minni en verið hefur. Þarlend ferðamálayfirvöld þegar ákveðið að eyða stórfé í kynningar á þremur allt öðrum stöðum í þessu mikla landi. Stöðum sem hingað til hafa ekki dregið að milljónir á milljónir ofan. Eða hver hefur heyrt talað um Mandalíka?

Það er raunverulega verið að skoða hvort ríkisvæða eigi British Airways.

Það má nánast geirnegla að fjöldi ferðamanna mun, til að byrja með að minnsta kosti, minnka allverulega. Bæði þar um að ræða að milljónir millistéttarfólks á Vesturlöndum plús Kína, Rússland og Indland, sem áður höfðu svona bærilega efni á góðu fríi á fjarlægum slóðum, hafa það bara ekki lengur.

Ekki aðeins stórauknu atvinnuleysi þar um að kenna heldur og almennri hræðslu. Ef alvarlegar kreppur verða á heimsvísu á tíu ára fresti eins og verið hefur frá aldamótum er ráð að spara þá litlu fjármuni sem fólk þó getur skrapað saman og verja sig fyrir næstu kreppu 2030. Í ofanálag við þetta má leiða líkum að því að fjölmörg flugfélög, hótel, gisti- og veitingastaðir og jafnvel skipafélög fari yfir um á næstunni ef það hefur ekki þegar gerst sem auðvitað takmarkar til muna framboð og minna framboð þýðir meiri kostnað.

Kóróna vs kapítalismi

Sumir fræðingar þarna úti fullyrða að kórónavírusinn muni ganga af kapítalismanum dauðum. Engin ríki heims eiga svo djúpa vasa að geta bjargað öllum þeim aragrúa fyrirtækja sem þurfa hjálp og hvað þá venjulegu fólki sem verður fyrir alvarlegum búsifjum. Framtíðin sé síaukið atvinnuleysi og örbrigð næstu mánuðina og jafnvel árin.

Til marks um þetta má nefna að yfir 1500 gististaðir á hinni vinsælu Balí hafa þegar hætt starfsemi þegar þetta er skrifað. Á Mallorca hafa rúmlega 400 veitingastaðir lokað dyrum endanlega. Heimsþekktar bílaleigur og skipafélög eiga varla fyrir salti í grautinn. Risaflugfélög á borð við British Airways, Iberia, Virgin Atlantic, Norwegian, SAS, Quantas, Air France, KLM, Lufthansa, Air Italia, Delta, United, Malaysian og Singapore Airlines hafa öll þegar fengið eða munu fá duglega ríkisaðstoð í einhverju formi. Boeing hefur fengið mikla ríkisaðstoð og Airbus mun þurfa aðstoð líka fyrr en seinna. Alls óvíst er hvort þeir styrkir eða lán duga til að halda öllu á flugi þann tíma sem til þarf en það verður að teljast afar ólíklegt.

Kostnaður ferðamanna þarf að lækka verulega

Það óhætt að veðja feitum hesti á að kostnaður við ferðalög, að frátöldum flugferðum, verður líklega lægri en verið hefur næstu misseri og jafnvel ár. Færri ferðamenn þýðir harðari samkeppni og ekki aðeins milli hótela eða veitingastaða heldur og landa. Í hallæri mun ferðafólk snúa sér mest að ódýrustu áfangastöðunum. Sem merkir að fáir eru að fara að greiða 20 þúsund kall fyrir skitna koju í 20 manna sal eða 15 þúsund kall per sólarhring fyrir skitinn bílaleigubíl með 100 kílómetra akstur innifalinn, eins og var raunin hérlendis fyrir ekki svo löngu.

Í hallæri þarf að hafa allar klær úti og bílaleigur eins og gisti- og veitingastaðir munu finna fyrir því næstu mánuðina ef ekki lengur.

Ýmis gististaðaeigendur hafa þegar gert sér grein fyrir þessu eins og við höfum áður fjallað um. Í Tælandi má nú finna fimm stjörnu gistingu næsta haust og vetur með allt að 80% afslætti. Í Tyrklandi eru mörg betri hótel að bjóða frían morgunverð ofan á lágt verð. Hér heima líta menn eingöngu til sumarsins og allir Íslendingar fá góðan afslátt. En við ekki enn fundið gististað sem er að auglýsa eitthvað spennandi tilboð í haust eða vetur. Líklega af því að gistihúsa- og hóteleigendur á landinu eru svo skuldsettir að það verður ekkert haust eða vetur nema fyrirtækin fái feita ríkisstyrki. Sömu sögu má segja um gististaði víða í heiminum.

Hvert ríki fyrir sig verður á slíkum örlagastundum að taka afdrifaríkar ákvarðanir með takmarkað fjármagn. Á að bjarga flugfélögum? Gistiheimilum? Risahótelum? Lánadrottnum? Bönkum? Fólki? Í kreppum fyrri ára hafa fyrirtæki oft notið góðs af ríkisaðstoð á kostnað fólksins. Slíkt er rökvilla stjórnmálamanna. Því hver er eftirspurn eftir flugferðum, gistinóttum eða hvers kyns dúlleríi ef fólkið á enga peninga…