Það er merkilegt fólk sem stjórnar flugfélaginu Icelandair. Þeim finnst alveg fráleitt að hugsanlegir viðskiptavinir fái minnstu fregnir af því hvað það kostar að tengjast netinu um borð í vélum þeirra.

Icelandair gefur ekkert upp um kostnað við netaðgang í flugi
Icelandair gefur ekkert upp um kostnað við netaðgang í flugi

Icelandair montar sig nú af því að bjóða netaðgang í velflestum vélum sínum. Sem er gott fyrir fólk sem ekki þolir við augnablik án afþreyingar eða þolir ekki síblaðrandi sessunautinn um borð.

Ágæt þjónusta að bjóða slíkt en að sleppa því alfarið að koma á framfæri hvað slíkt kostar bendir til þess að menn þurfi að punga út töluvert hærri upphæð en góðu hófi gegnir. Hvaða önnur ástæða getur verið fyrir að flugfélagið harðneitar að birta kostnað fyrir netaðgang?

Ekki fékk Fararheill svar við því fyrir hálfu ári síðan og ekki stendur stafur um það á vef flugfélagsins. Hvað er svona mikið leyndó? Kostar þetta formúgu? Og hvers vegna getur forsjált fólk með fyrirframgreidd kreditkort EKKI notið þjónustunnar?

Kannski lágvirt Neytendastofa ætti að kanna netkostnað neytenda um borð í vélum Icelandair í stað þess að hamra á vefnaðarvöruverslun á Þingeyri fyrir að gleyma að verðmerkja páskasvunturnar í glugganum?

Svör óskast.