Það er ekki oft sem Fararheill mælir með heimsókn á hótel annað en það sem gist er á erlendis hverju sinni en æði mögnuð sjón blasir við þeim er taka skrefið inn á Radisson Blu hótelið við Spandauer götu í Mitte í Berlín.

Stórkostlegt í alla staði. Aquadom í Berlín
Stórkostlegt í alla staði. Aquadom í Berlín

Við vorum sjálf steini lostin enda vissum við ekki að í miðjum sal hótelsins er alveg hreint magnað risastórt 25 metra hátt hringlaga fiskabúr. Það stærsta sinnar tegundar í heimi reyndar.

Þar synda um eins og ekkert sé eðlilegra yfir 50 tegundir litríkra fiska og eins og þetta sé ekki nóg þá gefst fólki kostur á að fara í glerlyftu upp miðju búrsins.

Til þess þarf reyndar meira en heimsækja hótelið. Þá þarf fólk að greiða aðgangseyri inn á Sea Life sædýrasafnið sem hér er líka. Lyftutúrinn gegnum mikilfenglegt fiskibúrið tilheyrir rúntinum um það safn.

Safnið sjálft er fjölsótt og vinsælt og eðalfínt stopp sé smáfólkið með í för. Frábært líka að safnið sé staðsett í miðborginni en alla jafna eru sædýrasöfn ekki á þeim stöðum. Heimsókn hingað gæti því verið hluti af rölti um fögur miðborgarstrætin.

Aðgangseyrir að Sea Life er um 2.500 krónur fyrir fullorðna og 1.600 fyrir þá sem yngri eru. Hægt er að spara þúsund krónur eða svo með því að bóka á netinu fyrirfram. Fyrir hina sem ekki nenna túr um sædýrasafn nægir að rölta inn á Radisson.

Leave a Reply