Þ að fer ekkert mikið fyrir honum en þannig á það akkúrat að vera þegar talið berst að rómantískasta bæ Þýskalands: Rothenburg ob der Tauber.

Þessi sæti bær er sá rómantískasti í Þýskalandi samkvæmt úttekt ferðamálaráðs þar í landi. Mynd TurismdeRothenburg

Þessi sæti bær er sá rómantískasti í Þýskalandi samkvæmt úttekt ferðamálaráðs þar í landi. Mynd TurismdeRothenburg

Rómantískt er sannarlega teygjanlegt hugtak. Ólíkt því teygjanlega hugtaki sem framsóknarmenn á þingi leggja í orðið strax. Að gera hlutina strax í huga margra framsóknarmanna þýðir að gera hlutina eftir dúk og disk. Svona ekta ástæða fyrir að þingheimur nýtur trausts 10 prósenta landsmanna. Sömu landsmanna og hafa ekki aðgang að netinu og búa í torfkofum.

Vissulega nett kjánalegt að segja borg eða bæ rómantískan en í okkar huga er verið að meina stað þar sem þér gæti liðið extra vel með þínum betri helmingi. Svo vel að gamall neisti gæti jafnvel kviknað við eilítið rölt hlið við hlið. Staður þar sem þér líður svo vel að þú SLAKAR raunverulega á og með slökun kemur allt þetta sem gerir okkur yndisleg og mannleg. Vinsemd, ástúð, óbilgirni og það án þess að gera nokkuð annað en að vera. Nokkuð sem veitist velflestum næsta vonlaust í dagsins önn á Fróni. Eða ekki heldurðu að illa launaðir unglingar á kassa í Bónus séu virkilega að meina það þegar þau bjóða þér að eiga góðan dag…

Rómantískur er Rothenburg ob der Tauber sannarlega. Fáir, ef nokkrir, bæir Þýskalands státa af jafn mörgum gömlum timburhúsum í miðbænum en Rothenburg ob der Tauber og þau velflest aldagömul og hafa varðveist betur en Stöng í Þjórsárdal. Helst vegna þess að þar hefur fjármunum verið veitt til verndunar gamalla mannvirkja meðan hér er það jafn hippsumhapps og bankareikningurinn hjá Illuga Gunnarssyni.

En ekki taka okkar orð fyrir að Rothenburg sé yndis yndis þegar kemur að mannlegum samskiptum. Það kannski hjálpar að samkvæmt ferðamálaráði Þýskalands er Rothernburg staður fyrir dúllerí númer eitt, tvö og þrjú og það samkvæmt skoðanakönnun meðal fleiri þúsunda ferðamanna í landinu.

Það nægir fyrir okkur hér hjá Fararheill enda við hér með eindæmum rómantísk 🙂