Alltaf kostulegt að heimsækja Vínarborg og vitna hversu ótrúlega vel heimamönnum hefur tekist að varðveita gamalt og gott. Allur miðbær borgarinnar er ekkert annað en eitt ómissandi safn.

Fátt spennandi við nútíma hótel klesst upp við mörg hundruð ára gamla klassíka byggingu í Vín. Skjáskot

Um það má meðal annars lesa í vegvísi okkar um Vínarborg en engum sem heimsækir borgina og þekkir mun á gömlu niðurníddu drasli og tímalausri fegurð ætti að koma á óvart að allur miðbær Vínar hefur verið á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna (SÞ) síðan árið 2001 sem mikilvægur arfur mannkyns.

Sá verðskuldaði heiður nú í hættu.

Vitum ekki með ykkur þarna úti en hvað okkur hér varðar finnst okkur heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna ein af fáum stofnunum SÞ sem virkar sem skyldi. Þar er ekki hver höndin upp á móti annarri á fimm mínútna fresti sökum þeirrar einföldu staðreyndar að fegurðarskyn velflestra á plánetunni er mikið til hið sama. Við höfum flest tilfinningu fyrir hvað er stórfenglegt og hvað ekki á þessari jörðu.

En heimsminjastimpill Vínar gæti brátt heyrt sögunni til. Borgaryfirvöld vilja nefninlega taka „Reykjavík“ á þetta og glæða gamla miðborgina nýju lífi: með nútíma háhýsum og hótelum. Auðvitað til að freista fleiri ferðamanna og fjárfestinga auðmanna. Það líst heimsminjanefnd illa á og telur ekkert „heimsminjalegt“ við háklassa skrifstofubyggingar og 70 metra hátt hótel beint ofan í klassískum húsunum í miðborginni.

Sé sagan eitthvað til að fara munu fjárhagsöflin hafa sitt eftir og það þýðir að eftirleiðis mun miðborg Vínar taka stökkbreytingum á næstu árum. Vín verður léttvín.

Drífa sig að skoða áður en ruglið hefst 😉