Hundrað og sextíu þúsund krónur á par er það allra lægsta sem ferðaskrifstofan Vita getur boðið landanum í þriggja daga borgarferð til hinnar ágætu Dyflinnar á Írlandi. Það er töluvert dýrara en slík ferð þarf að kosta.

Auglýst lægsta verð á ferð til Dublin finnst hvergi á vef Vita. Það kallast vörusvik á íslensku máli. Skjáskot
Auglýst lægsta verð á ferð til Dublin finnst hvergi á vef Vita. Það kallast vörusvik á íslensku máli. Skjáskot

Vitaferðir, dótturfyrirtæki Icelandair, býður upp á nokkrar ferðir þennan veturinn til Dublin í beinu flugi. Ágætar stuttar ferðir en fyrirtækið virðist ekki gera sér grein fyrir að það er nú flogið beint milli Keflavíkur og Dublin af hálfu Wow Air og því mun einfaldara en ella að gera verðsamanburð. Þar stendur þungur hnífur í kú hjá Vita.

Eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti er allra lægsta verð á ferð til Dublin 79.900 krónur á mann og þar miðað við tvo saman á skítsæmilegu hóteli. Ergo: heildarkostnaður pars eða hjóna tæplega 160 þúsund kall!!!

En þetta „lága“ verð finnst hvergi á leitarvél Vita til Dyflinnar. Eðlileg skýring á því reyndar þó ekki liggi það alveg ljóst fyrir við skoðun; uppgefið verð miðast við að greiða hluta fargjalds með vildarpunktum móðurfélagsins Icelandair.

Lágmarksverð til Dublin með Vita er því í raun 89.900 krónur á mann en ekki 79.900 krónur því vildarpunktar eru ekki viðurkenndur gjaldmiðill og ólöglegt fyrir Vita að auglýsa slíkt án þess að tiltaka að um vildarpunktatilboð sé að ræða. Enginn að tékka á því fyrir okkur neytendur auðvitað.

Metnaðarleysið felst þó aðallega í að við getum notið þess sama í Dublin og Vita býður upp á fyrir miklu lægra verð ef við bara græjum þetta sjálf.

Sem dæmi kostar borgarferðin 3.-6. nóvember þar sem gist er á fjögurra stjörnu O´Callaghan Alexander Hotel alls 195.402 krónur á parið. Næstum 100 þúsund kall á kjaft eða rúmlega 33 þúsund krónur hvern dag á mann. Fátt hagstætt við slíkt að okkar mati. Sú upphæð mun nærri því að kallast okur.

Ef við nú bókum flug sömu daga gegnum Wow Air með tösku kostar flugið fram og aftur manninn 40.995 krónur eða 81.990 alls fyrir tvo saman. Ef við svo kíkjum á sömu dagsetningar á O´Callaghan Alexander Hotel fyrir sams konar herbergi á hótelvef Fararheill finnum við gistinguna með morgunverði fyrir 62.685 krónur eða 31.342 krónur á mann.

Sem merkir auðvitað að í stað þess að senda fleiri seðla í feita vasa skælbrosandi hluthafa Icelandair fáum við fína þriggja daga borgarferð til Dublin fyrir 144.675 krónur samtals. Parið sparar sér litlar 50 þúsund krónur!

Á hvaða heimili er það talið vera klink?