Heyrt talað um Svaneke? Það er yndislegasti bær Danmerkur. Mynd Miss CopenhagenMynd Colville AndersenMynd Anti TormaMynd Per Vad

Væru utanaðkomandi beðnir um að velja mest sjarmerandi borg eða bæ í Danmörku kæmu eflaust vöfflur á viðkomandi. Æði margir þéttbýlisstaðir í landinu eru yndislegir út í eitt og þá yfirleitt þeir þar sem tekist hefur að varðveita eldri byggingar og fanga um leið stemmningu fyrri tíma.

Heyrt talað um Svaneke? Það er yndislegasti bær Danmerkur. Mynd Miss Copenhagen
Heyrt talað um Svaneke? Það er yndislegasti bær Danmerkur. Mynd Miss Copenhagen

Það er meira að segja erfitt að þrengja hringinn þó aðeins sé miðað við þá bæi og borgir þar sem tekist hefur að viðhalda gamalli borgarmynd. Flestir Íslendingar komast við í gamla bæ Árósa og það er ekkert leiðinlegt við að labba um elsta hluta Ebeltoft. Sömuleiðis er elsti hluti Ribe eftirminnilegur flestum sem þar eyða stund svo aðeins þrír bæir séu nefndir.

En Danir sjálfir eru í litlum vafa hvaða staður er mest sjarmerandi í landinu. Það er einn allra minnsti þéttbýlisstaður landsins alls, smábærinn Svaneke í Borgundarhólmi. Það eru niðurstöður viðamikillar könnunar sem Bygningskultur Danmark og nokkrir danskir fjölmiðlar stóðu fyrir en samtökin atarna eru regnhlífarsamtök félaga og fyrirtækja sem vilja varðveita gamalt og gott í landinu.

Það eru þó ekki aðeins vel viðhaldið gömul hús sem nægja til heldur ekki síður sú stemmning sem þau skapa. Með öðrum orðum; sjarmi. Hann er tiltölulega auðvelt að upplifa í litlum, þröngum götum bæjarins sem stendur austast allra þéttbýlisstaða Danmerkur. Það er líka eitt enn sem Svaneke getur státað af og ætti að gleðja þá sem vantar aðra ástæðu til heimsóknar. Svaneke nýtur flestra sólarstunda allra þéttbýlisstaða í Danmörku. Það er því hægt að líta á þennan sem fyrirtaks sólardvalarstað og ekki skemmir að hér er fyrirtaks bruggverksmiðja sem dælir út hinum ágætasta mjöð.