Feneyjar hefur alla tíð verið dýr borg á heimsvísu og langdýrasta borg Ítalíu um langa hríð. En þar má samt njóta án þess að taka upp veskið sí og æ. 

Murano er ein af mörgum Feneyjum og að mörgu leyti mun betri heimsóknar en borgin sjálf. Mynd vgm 8383
Murano er ein af mörgum Feneyjum og að mörgu leyti mun betri heimsóknar en borgin sjálf. Mynd vgm 8383

En það á við þar eins og annars staðar í heiminum að ýmsir góðir og skemmtilegir hlutir þurfa ekki að kosta krónu, evru eða dollar.

Fararheill.is hefur tekið saman fimm merkilega staði í Feneyjum sem kosta ekki neitt að sjá eða heimsækja.

♥ Markúsartorgið (Piazza San Marco) – Engin raunveruleg þörf að tiltaka þetta heimsfræga torg enda væntanlega engir sem heimsækja borgina sem ekki stíga þar fæti. Torgið sjálft er erilsamt og má vart milli sjá hvort fólk eða dúfur eru fjölmennari. En að spássa um þar og skoða ekki bara torgið heldur einnig fjölbreytt mannlífið lætur tímann fljúga tiltölulega fljótt. Hafið í huga að ekki er síður forvitnilega að litast þar um á veturnar þegar sjávarborð hækkar yfir torgið og allir valsa um í stígvélum.

♥ Markúsarkirkjan (Basilica di San Marco) – Er mikilfengleg og margt fallegra muna þar innandyra. Þar liggja leifar Markúsar sjálfs sem feneyskir kaupmenn stálu og færðu hingað frá Egyptalandi á sínum tíma. Aðgangur að kirkjunni er ókeypis þó farið sé fram á litla þóknun. Hins vegar verður að greiða til að fá aðgang að Markúsarsafninu.

♥ Rialto brúin (Ponte di Rialto) – Ekki aðeins falleg heldur stórmerkileg enda var þetta í mörg hundruð ár eina brúin yfir Canale Grande og tengdi þannig saman bæjarhluta Feneyja. Byggð 1591 sem þýðir að hún er að nálgast fimm hundruð ára aldurinn hægt og bítandi. Aðeins betri ending í þessari en brúm á Íslandinu.

♥ Gettóin (Gheto Novo/Vecchio) – Feneyjar var fyrsta borgin í Evrópu sem skildi að kristna menn og gyðinga með þeim formerkjum þó að gyðingarnir fengu þar að vera svo lengi sem þeir héldu sig á sínu úthlutaða svæði. Það svæði fékk nafnið gettó. Ekki kannski nein ósköp að sjá en þó er þessi hluti öðruvísi á margan hátt en aðrir hlutar Feneyja. Gyðingasafn er þarna einnig en þar kostar inn.

♥ Murano eyja (Muran) – Ein af um hundrað eyjum alls í mynni Feneyja en þessi ákveðna eyja er vagga glerlistar í borginni sem er víðfræg fyrir gler handverk margar aldir aftur í tímann. Hægt er að skoða þar safn og fylgjast með glerlistamanni að störfum án endurgjalds en raunar er ekki þangað komist nema með báti sem kostar innan við þúsund krónur.