Þó ritstjórn Fararheill hafi reglulega gagnrýnt bæði verðlag og tilbreytingarleysi í þeim pakkaferðum sem okkur Íslendingum býðst alla jafna af hálfu ferðaskrifstofanna er engu að síður staðreyndin sú að inn á milli má finna metnaðarfullar og gríðarlega spennandi ferðir sem heilla ættu velflesta sem gaman hafa af ævintýrum á erlendri grundu.

Eitt stoppið í Indlandsferð Úrval Útsýn í vetur er í Goa á Indlandi

Sökum þess að fjöldi ferðaskrifstofa er verulegur hér á landi og tækifæri margra lítil til að koma vænlegum ferðum sínum á framfæri lagðist ritstjórn yfir ferðaúrvalið í boði og hefur valið úr merkilegustu ferðirnar sem boðið er upp á í haust og vetur.

Þær eru í engri sérstakri röð þessar:

 • Hjóla- og ævintýraferð um Laos og TaílandOriental
 • Ævintýraferð um norðurhluta hins íðilfallega Taílands og Laos og það á hjólum. Vatn fær hver hjólreiðakappi í munninn af að lesa leiðalýsingu á vef Oriental en ferðin er vel utan hefðbundinna ferðamannaleiða og sjaldan betra tækifæri að kynnast raunverulegum heimamönnum, hefðum þeirra og lífi, en á hjóli í rólegheitum. Ritstjórn hefur sjálf reynslu af hjólaferðum um þennan heimshluta og getur sannarlega mælt með slíku. Oriental.is/31. október / Verð á mann 395.000 krónur.
 • Sérferð til EþíópíuBændaferðir
 • Næsta óhætt er að fullyrða að enginn er fróðari um Afríku, Mið-Austurlönd og venjur og siði á þeim slóðum en Jóhanna Kristjónsdóttir. Hún leiðir hóp um hið afar forvitnilega land Eþíópíu í vetur og þó landið sé kannski enn í minnum haft fyrir hungursneyð hér á árum áður er þar margt afar forvitnilegt að sjá og upplifa. Ekki síst stórmerkilegt að heimamenn hafa í aldaraðir þróað eigin trú, tímatal og tungumál. Fjölmargir staðir í landinu eru á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og sögu þeirra allra kann fararstjórinn utanbókar og vel það. Bændaferðir / 12. október / Verð á mann 515.500 krónur.
 •  Þakkargjörðarhátíð í WashingtonIcelandair
 • Kannski hljómar út úr korti að setja fimm daga ferð til Washington í Bandaríkjunum í flokk með framandi ævintýraferðum. En hér er það tímasetningin sem öllu skiptir. Ekki aðeins er Þakkargjörðarhátíðin sérstakur og forvitnilegur tími alls staðar í landinu heldur skemmir vart fyrir að mestu útsölur ársins daginn eftir hátíðina. Washington er síst síðri staður til að gera fínustu kaup og það á ólíkt betra verði en hérlendis. Ekki heldur má gleyma að borgin er ein sú evrópskasta í Bandaríkjunum og Smithsonian söfnin þar stórkostleg. Icelandair / 22. nóvember / Verð á mann 174.900 krónur.
 • Sérferð til AlbaníuTransatlantic
 • Ferðaskrifstofan Transatlantic á Akureyri býður metnaðarfulla dagskrá og ein forvitnilegasta ferðin sem þeir bjóða næsta haust er sérferð til Albaníu. Það er líklega það land Evrópu sem hvað fæstir þekkja enda skammt síðan að landið var harðlokað og læst fyrir utanaðkomandi. Stórfallegt land sem enn sem komið er er laust við fjöldatúrisma sem fer í taugarnar á sífellt fleiri ferðamönnum. Þá er dagskrá Transatlantic flott og fjölbreytt. Transatlantic / 28. september / Verð á mann 279.450 krónur.
 • Sérferð um IndlandÚrval Útsýn
 • Indland er eitt mest heillandi land heims til ferðalaga en gallinn alla jafna sá að landið er svo stórt og frábrugðið héraða á milli að mörg ár þarf til að kynnast því með góðu móti. Næstbesti kosturinn er að fara í þessa yfirgripsmiklu ferð með ÚÚ. Byrjað er á hinum svokallaða Gullna þríhyrningi en þá er haldið um Jaipur, Agra, Khajuraho og Varanasi en endað á guðdómlegum ströndum Góa sem er vinsælasti áfangastaður sólþyrstra í landinu. Úrval Útsýn / 17. október / Verð á mann 569.900 krónur.
 • Safaríferð til KenýaVita
 • Það er vart hægt að kalla sig merkilegan ferðalang nema fara minnst einu sinni á safarí og þá kemur aðeins Afríka til greina. Vita býður í samstarfi við Afríku-Ævintýraferðir upp á fína safaríferð sem jafnframt innifelur nokkurra daga dvöl á ströndinni sem er ein sú allra fínasta í álfunni. Góð dagskrá og ekki of þétt og heimsókn á ABC barnaheimilið í borginni Naíróbí. Vita / 6. nóvember / Verð á mann 654.600 krónur.
 • Sérferð til BarbadosHeimsferðir
 • Karabíska hafið er allt of sjaldan í boði fyrir Íslendinga og það má Heimsferðir eiga að reglulega býður sú ferðaskrifstofa upp á ferðir þangað. Nú horfir reyndar svo við að ekki er um beint flug að ræða heldur flogið gegnum London en engu að síður er dvöl á Barbados nóg til að kveikja lífsneista í mesta dauðyfli. Unaðslegri strendur vandfundnar í heiminum og gestrisni heimamanna velþekkt. Heimsferðir / 30.október / Verð á mann 342.800 krónur.
 • Silkileiðin mikla um ÚzbekistanBjarmaland
 • Stórmerkileg og metnaðarfull ferð þessarar nýju ferðaskrifstofu til hins fjarlæga Úzbekistan. Þetta er alvöru pakki með jafn fjölbreyttri gistingu og á hóteli í Tashkent og í eyðimerkurtjöldum sem þó hafa ýmis þægindi sem erlent ferðafólk getur illa verið án. Hér er gríðarmikil saga og minjar og þær skoðar fólk undir leiðsögn hins lærða Hauks Haukssonar. Bjarmaland / 16.október / Verð á mann 488.000 krónur.