Ferðaþyrstir Íslendingar sakna Iceland Express af hinum íslenska flugmarkaði ef marka má nýja könnun Fararheill. Samkeppni á Fróni er minni fyrir vikið. Pálmi Haraldsson getur því aðeins brosað í kampinn í fylgsnum sínum.

Skoðanakönnun Fararheill leiðir í ljós að stór hluti landans saknar þess að Iceland Express sé ekki til staðar til að veita meiri samkeppni

Það, að minnsta kosti, er álit 59 prósenta þeirra sem þátt tóku í síðustu skoðanakönnun Fararheill þar sem spurt var hreint út hvort fólk saknaði Iceland Express nú þegar rúmir þrír mánuðir eru síðan Wow Air keypti mestan rekstur Iceland Express.

Eins og Fararheill spáði fyrir um hefur ekki heyrst stuna frá háttvirtu Samkeppniseftirliti sem á að gæta hagsmuna okkar allra. En meirihluti Íslendinga, sé tekið mið af þátttakendum í vefkönnun Fararheill, eru á þeirri skoðun að þar séu neytendur að tapa og betur væri að hafa þrjú félög að lágmarki að keppa um hituna.

Ein 25 prósent svarenda segjast reyndar ekki sakna þess félags neitt og að Wow Air sé sannarlega að standa sig í stykkinu. Sextán prósent segja bæði og sakna Iceland Express.

Niðurstaðan er nokkuð afgerandi: 75 prósent svarenda segja gott eða allt í lagi að Iceland Express væri enn við lýði.

Af þessu dregur hver fyrir sig sínar ályktanir en varla gott veganesti fyrir Wow Air Skúla Mogensen og félaga að ekki sé meiri meðbyr þrátt fyrir gamansemi og dúllerí um borð. Enda hefur bros á vörum flugþjóna lítil áhrif þegar fargjöld hækka duglega eins og raunin hefur verið síðan Iceland Express var yfirtekið í október.

Alls greiddu 394 atkvæði í þessari könnun Fararheill. Sú er ekki vísindaleg á einn né neinn hátt en sannarlega gefur vísbendingar um stöðu mála ef marka má söguna.

Við þökkum lesendum kærlega þátttökuna og bendum á að ný könnun er komin á vefinn. Þar leikur okkur forvitni að vita hvað það sé sem einkenni Íslendinga í ferðalögum erlendis.