Lengi vel hefur ekki verið mjög flókið mál að komast upp að fjallaborginni mikilfenglegu Machu Picchu í Andesfjöllum Perú. Yfirgnæfandi meirihluti fer langleiðina með lest og síðasta spottann með rútu allsvakalega leið en að þeirri ferð lokinni eru aðeins nokkur skref að hinni frægu borg Inkanna.

Borgin merkilega og í bakgrunni hið tignarlega Huayna Picchu
Borgin merkilega og í bakgrunni hið tignarlega Huayna Picchu

En sé litið á helstu myndir af stórkostlegri fjallborginni má oftast sjá mikinn, stóran og fallegan fjallstind hinu megin við það sem var stærsta borg Inka á sínum tíma. Sá tindur heitir Huayna Picchu.

Svo merkilegt sem það er þá voru Inkarnir líka ötulir á þeim tindi ekki síður en í borg sinni. Upp Huayna Picchu er hogginn stígur og á löngum köflum tröppur upp á tindinn þar sem einnig eru minjar frá Inkunum.

En það er ekki alveg svo einfalt reyndar að æða af stað upp. Fyrir utan að greiða þarf sérstakt gjald fyrir leyfi til að ganga upp Huayna Picchu, kallað Wayna picchu á spænsku, í viðbót við gjaldið til að sjá og skoða Machu Picchu þá er leiðin sem um ræðir vægast sagt hrikaleg.

Má alveg hundrað prósent ljóst vera að lofthræðsla var ekki í orðabókum þeirra heljarmenna sem hér léku sér í örþunnu fjallaloftinu að því að höggva þrep og tröppur sentimetrum frá hrikalegu gljúfrinu fyrir neðan. Efist einhver um hversu hrikalegt þá nægir sennilega að nefna að toppur Huayna Picchu er í 2.720 metra hæð yfir sjávarmáli og tæplega 400 metrum hærri en Macchu Picchu. Huayna er semsagt einn Hvannadalshnjúkur plús tíu Hallgrímskirkjur í ofanálag á hæðina.

Hér að neðan er myndband eins ferðalangs af leiðinni upp. Sú er allsvakaleg en ekki síður hríslast sviti fram á enni þegar farið er niður aftur.

Leave a Reply