Þau voru ekki amaleg flugtilboð Primera Air föstudaginn svarta. Barcelóna, Alicante eða Malaga á tíu þúsund kall fram og aftur. Illu heilli giltu þau tilboð þó aðeins fyrir Dani og Svía. Engin slík tilboð fyrir Íslendinga.

Ekki sama Jón og séra Jón hjá Primera Air. Skjáskot
Ekki sama Jón og séra Jón hjá Primera Air. Skjáskot

Snemma dags nýliðinn föstudag barst skeyti frá Primera Air þar sem vakin var athygli á sértilboðum flugfélagsins frá Danmörku og Svíþjóð. Þar allt að 50 prósenta afsláttur á flugferðum í sólina á Spáni þann dag og hægt að skottast fram og aftur niður undir tíu þúsund krónur. Hreint ágætt tilboð.

En ekki bólaði á einu einasta tilboði á íslenskum vef Primera Air þennan sama dag. Engin ástæða til að púkka upp á þá þjóð sem kom Primera Air á laggirnar á sínum tíma. Það lið getur bara keypt sínar Malaga-ferðir á sérstöku 29 þúsund króna tilboðsverði aðra leið eða rúmlega 60 þúsund fram og aftur.

Það svo lítið sem 500 prósenta verðmunur á fluginu til og frá Malaga svo dæmi sé tekið. Samt er flugtími frá Stokkhólmi þangað svipaður og frá Keflavík og sömuleiðis eru skattar og gjöld á Íslandi á pari við það sem gerist í Svíþjóð.

Það því ekkert til fyrirstöðu að bjóða okkur hér keimlík tilboð en enginn áhugi á því. Íslendingar mega éta það sem úti frýs virðist vera.