Þó aldrei megi alhæfa neitt hafa skíðaferðir íslensku ferðaskrifstofanna liðna vetur verið í dýrari kantinum. Ein er sú krókaleið sem fólki býðst að fara til að komast á fyrsta flokks skíðasvæði og það með nokkrum stæl og afslappandi hætti. Með Eurostar lestinni beint frá London.

Aðeins öðruvísi leið á fínustu skíðasvæði og það beint frá London. Mynd Daniel Matthew
Aðeins öðruvísi leið á fínustu skíðasvæði og það beint frá London. Mynd Daniel Matthew

Eurostar er fyrirtækið sem rekur lestir þær er fara undir Ermasundið milli Bretlands og Frakklands. Færri vita að sérstök Eurostar skíðalest er starfrækt ákveðinn tíma hvert ár og yfirleitt frá nóvember eða desember og fram í apríl.

Sú lest fer frá London til frönsku Alpanna og eru bæði nætur- og dagsferðir í boði og prísarnir frá 38 þúsund krónum fram og til baka.

Með góðum fyrirvara er því hægt að verða sér úti um flug til London fyrir 40 þúsund eða jafnvel lægra með tilboðum og í kjölfarið notið átta klukkustunda lestarferðar beint á topp skíðasvæði. Engin stórkostlegur sparnaður þegar gisting er reiknuð með en aðeins öðruvísi pakki auk þess sem lestarferð um snjóug héruð Frakklands um hávetur getur verið heillandi fyrir ýmsa.

Í boði eru ferðir til þriggja mismunandi áfangastaða í frönsku Ölpunum. Eru það Moûtiers, Aime-la-Plagne og Bourg-St-Maurice en ein sex heimsklassa skíðasvæði er úr að velja á þessum stöðum.