Skip to main content
Pistlar

Marokkó ekki fyrir fjölskyldur

  11/03/2009maí 11th, 2014No Comments

Marokkó er heillandi á sinn hátt en fara ber þar afar varlega og enn hef ég ekki fundið neinn stað þar sem ég myndi áhyggjulaus bjóða fjölskyldu minni að koma með. Þó er það klárlega upplifun að koma þangað, sjá, skoða og kynnast en hvað Tangier varðar er best að fara sóló eða í hóp með öðrum.

Eftir Jón Sigurð Eyjólfsson

Vart er hægt að hugsa sér rótgrónari fjölmenningaborg en Tangier. Nýlenduherrar og aðrir valdamenn víðsvegar að hafa lagt hana undir sig í gegnum tíðina og skilið eftir sig áhrif sem tíminn hefur ekki náð að afmá. Það er því engu líkara en borgin sé fjölmenningaleg í eðli sínu. Til dæmis búa flestir íbúar borgarinnar við tungumálakunnáttu sem menntuðustu Evrópubúar gætu verið stoltir af.Ég varð glögglega var við það á markaðnum í medínunni en þar höfðu margir þann háttinn á að spyrja mig áður en ég dró upp innkaupalistann hvaða tungumál hentaði mér best. Nokkrir þeirra buðu upp á frönsku, spænsku og ensku en vissulega nefndu þeir aldrei arabísku eða tungumál berba sem valkost enda er ég ekki þess legur að hafa vald á þeim.

Arabíska er opinbert tungumál landsins en Berbar viðhalda sínu tungumáli sem ekki er til á prenti. Flestir Marokkóbúar tala svo frönsku sem er oftast notuð í viðskiptum og við stjórnsýslu. Það vakti ávallt forvitni mína þegar ég hitti á viðmælendur sem töluðu ensku og spurðist ég venjulega fyrir hvernig þeir hefðu lært hana. Sumir sögðust hafa lært af þeim aragrúa enskumælandi ferðamanna sem leggja leið sína til borgarinnar og vegna þess að þeir heyrðu ensku í útvarpi og sjónvarpi. Einn þeirra hafði verið sjómaður og siglt um heimsins höf, til dæmis til Eyjaálfu og Írlands.

Boðið er upp á fimm menntakerfi í borginni; marokkóskt, franskt, bandarískt, enskt og spænskt. Þar fá börn menntun frá unga aldri og þangað til þau klára gagnfræðaskóla eða jafnvel ná háskólagráðu. Einnig eru fjölmargir háskólar í Tanger og nágrenni.

Upplýsingaflæðið og afþreyingin þar sem ég þekki best til þ.e.a.s. Íslandi, Spáni og Grikklandi, virðist jafnvel einsleit miðað við það sem gerist í Tanger. Á kaffihúsum, veitingastöðum og öðrum stöðum þar sem sjónvarp var haft í gangi mátti sjá fréttir og annað sjónvarpsefni frá spænskum, frönskum, marokkóskum, bandarískum, breskum og arabískum sjónvarpsstöðvum. Oftast varð ég þó var við útsendingar frá Al Jazeera fréttastöðinni. Tónlistaflutningur í gegnum imbann gat komið frá Pakistan, Indlandi, Bangladess ásamt svo flestum arabísku ríkjunum.

Klæðaburður margra Tangerbúa ber skemmtilegt vitni um stefnumót austurs og vestur á þessum stað. Til dæmis var ekki óalgengt að sjá menn í virðulegum kufli, svokölluðum djelaba, og í nýjustu tegund af Nike íþróttaskóm.

Langflestir íbúar borgarinnar eru Múhameðstrúar en einnig býr þar töluverður fjöldi kristinna manna og gyðinga. Stór og glæsileg kirkja nálægt miðbæ borgarinnar og synagogur bera glöggt merki um umburðarlyndi meirihlutans gagnvart öðrum trúarbrögðum.

Hafi ég því einhvern tímann álitið sem svo að borgir múslima væru einsleitar vegna þess hve íslömsk menning væri yfirþyrmandi þá var Tangier fullkomin borg til að hrista upp í þeirri hugmynd.

Staðsetningin gæti ekki verið heppilegri fyrir þessa 700 þúsund manna heimsborg sem liggur við endamörk tveggja heimsálfa og heimshafa. Hún er á norðanverðri Atlandshafsströnd Afríku en samt svo nálægt Evrópu og Miðjarðarhafinu.

Tangier var byggð af Fönikíumönnum tæpum 1500 árum fyrir kristburð. Nafnið er líklegast dregið af guði Berba sem Tinjis hét en mikill fjöldi íbúa enn í dag er af þeim kynþætti eins og víða í borgum Marokkó. Fimm öldum fyrir kristburð tóku Karþagómenn völd í borginni. Karþagó var á þeim tíma öflugt borgríki á norðurströnd Afríku þar sem Túnis er nú. Það var reyndar lengi nýlenda Fönikíumanna en Fönikía var við botn Miðjarðarhafs, nánar tiltekið þar sem Líbanon er nú. Á síðustu öld fyrir kristburð tóku Rómverjar öll völd í borginni en í fyrri hluta þeirrar stjórnartíðar bjuggu Tangierbúar við frelsi frá ofríki nýlenduherranna. Það breyttist svo í stjórnartíð Ágústusar. Borgin varð þá höfuðborg rómverska ríkisins Máretania Tingitana og svo Hispaníu sem þá náði yfir allan Íberíuskaga. Á sjöttu eða sjöundu öld eftir kristburð lögðu Býsantínumenn borgina undir sig og stóðu þau yfirráð þar til arabar tóku völdin árið 702.

Nágrannarnir í norðri létu ekki sitt eftir liggja í þessum efnum en Portúgalar, Spánverjar og Frakkar hafa farið með völd í borginni í lengri eða skemmri tíma. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þessi sögufræga borg skyldi svo hafa orðið að heimanmundi sem fylgdi portúgölsku prinsessunni Katarínu frá Braganza þegar hún giftist Karli II Bretakonungi á 17. öld. Þar með var Tanger orðin gimsteinn í bresku krúnunni svo ég bregði nú fyrir mér líkingarmáli konungsins sjálfs. En Bretarnir fóru ekki vel með gimsteininn en eignarhaldið var nokkuð dýrt. Berberskir sjóræningjar gátu verið Bretunum erfiður ljár í þúfu en einnig gerði Moulay Ismail soldán í Marokkó ítrekaðar tilraunir til að ná borginni á sitt vald. Yfirvöldum á Englandi var líka farið að þykja reikningarnir heldur háir sem fylgdu setuliðinu og öðrum rekstri í borginni svo margir töldu hagkvæmast að láta hana af hendi. Soldáninum varð því að ósk sinni árið 1684 en þá yfirgáfu Bretar borgina en skildu við hana í rústum svo soldáninn kæmi nú ekki að svignandi gnægtaborði.

Ráðamenn frá Frakklandi og Spáni settust svo á rökstóla í marokkósku borginni Fez til að skipta með sér landinu árið 1912 í svokölluð verndarsvæði. Frakkarnir gengu af fundinum með yfirráð yfir nær öllu landinu uppá vasann en Spánverjar réðu yfir hluta landsins í norðri. Það var hinsvegar nokkuð óljóst hver færi með völd í Tangier þar til ársins 1923 þegar komið var á fót alþjóðlegu verndarsvæði sem laut stjórn Frakka, Spánverja, Breta og svo einnig Ítala árið 1928. Árið 1956 leið þetta marglita verndarsvæði undir lok, sem ófáar þjóðir höfðu tekið þátt í að stjórna, en þá tók Marokkó við borginni eftir að hafa hlotið sjálfstæði. Ekki ríkti aðeins ringulreið um stjórn borgarinnar heldur varð hún að gróðrastíu fyrir svartar iðjur eins og peningaþvætti, smygl, njósnir, eiturlyfjasölu og vændi.

Ég er ekkert hissa á því að margir heimsþekktir listamenn skyldu og skuli heillast af þessari fornfrægu fjölmenningaborg og ákveða að dveljast þar í lengri eða skemmri tíma.Eftir að franski myndlistamaðurinn Eugéne Delacroix gerði lit- og blæbrigðunum í Tangier skil í verkum sínum árið 1832 varð borgin afar eftirsóttur dvalarastaður myndlistamanna. Henri Matisse dvaldi um alllangt skeið á Villa de France hótelinu þar sem hann málaði aragrúa málverka. Í dag er hægt að fara í herbergið þar sem listamaðurinn dvaldi og dást að útsýninu sem blés honum anda í brjóst.

Á tímum alþjóðastjórnarinnar þeystu rithöfundar og aðrir listamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu til borgarinnar. Margir þeirra heilluðust af því frjálsræði sem eiturlyfjaneytendur bjuggu þar við en einnig fóru margir samkynhneigðir karlmenn þangað enda voru drengirnir þar í borg til í að selja sig fyrir smáaura.Bandaríski rithöfundurinn og tónskáldið Paul Bowles flutti þangað árið 1947 ásamt konu sinni Jane. Þar með var rithöfundaelíta beat kynslóðarinnar komin með hauk í horni og áttu fjölmargir eftir að kynnast borginni fyrir tilstillan þeirra hjóna. Þeirra á meðal voru Truman Capote, Jack Kerouac, Allen Ginsberg, Gore Vidal, Brion Gysin, Tennessee Williams og William S. Burroughs. Tangier var tilvalin borg til svallsins sem jafnan fylgdi þessu skrautlega liði. Paul Bowles kynnti þeim kíff sem er efni sömu ættar og hass, verkað úr hampjurtinni og blandað tóbaki. Reyndar þarf ekki að leggja mikið á sig til að verða sér út um efnið. Til dæmis fékk ég fyrsta af ótal tilboðum um kíff einungis tíu mínútum eftir að ég kom úr tollinum. Tilboðunum var þó öllum hafnað svo líklega hefði ég ekki átt samleið með sukkhirð Paul Bowles. William S. Burroughs þurfti þó eitthvað sterkara en kíff til að koma líf í æðarnar og var það hæðarleikur einn að fá heróín til þess arna, til dæmis í Zoco Chico í medínunni sem var alræmt spillingarbæli.

Árið 1997 fór Örnólfur Árnason, rithöfundur og blaðamaður, að hitta Paul Bowles á heimili hans í Tangier. Þar tók hann viðtal við skáldið sem birtist í Morgunblaðinu sama ár. Þá var gamli glaumgosinn orðinn nokkuð heilsutæpur. Örnólfur spurði skáldið útí þessa gömlu svallfélaga hans og þá hverjum þeirra hann hefði haft mestar mætur á, sem höfundi og sem persónu. „Ætli mér þyki ekki William Burroughs merkasti höfundurinn, ég hugsa hann hafi verið gáfaðastur,“ segir Paul Bowles, „en mér þótti vænst um Allen Ginsberg. Nú eru þeir allir dauðir nema Burroughs, sumir löngu dauðir, eins og Kerouac. Hann fór líka illa með sig, drakk eins og svín.“ Fjórum dögum eftir þennan fund fékk Burroughs hjartaáfall og lést. Þremur árum síðar fór Paul Bowles sömu leið eftir hjartaáfall sem hann fékk við höfnina í Tanger. Hann var þá 88 ára að aldri.

Hjónaband þeirra Paul og Jane Bowles var síður en svo farsælt enda varla við slíku að búast þar sem bæði voru tvíkynhneigð. Jane átti í ástarsambandi við marokkóska vinnukonu á heimilinu. Samband þeirra stóð yfir í 20 ár og sakaði Paul ástkonuna oftsinnis um að byrla sér eitur eða leggja á sig bölvun. Jane sem skrifaði skáldsögur og leikrit lést í Malaga árið 1973 illa farin af vitglöpum sem hrjáðu hana árum saman.

Eitt af frægustu verkum Paul Bowles er skáldsagan The Sheltering Sky sem bæði er innblásinn af náttúrunni í Norður Afríku og sennilegast af þeim erfiðleikum sem hann átti við að etja í hjónabandinu. Ítalski kvikmyndagerðamaðurinn Bernando Bertolucci gerði kvikmynd eftir bókinni árið 1990. Í lok myndarinnar sést svo skáldinu bregða fyrir í dramatískri lokasenu. Allar skáldsögur hans fjalla um vesturlandabúa í Norður Afríku og ekki verður annað sagt en að þeir fari þar nokkuð halloka gagnvart óprúttnum heimamönnum.

Tangier hefur einnig yfir sínum eigin skáldum að státa. Mohameð Choukri er þeirra allra þekktastur en hann er fæddur í sárri fátækt árið 1935 í fjallahéraðinu Rif. Hann flutti ásamt foreldrum sínum til Tangier og þaðan til Tetouan. Faðir hans var með eindæmum ofbeldishneigður og myrti hann bæði bróður Mohameðs og móður. Mohameð sjálfur stakk af til Tangier þar sem hann lifði sem útigangsdrengur til fjölda ára. Til að komast af varð hann meðal annars að ræna, smygla og selja sig. Um tvítugt lærir hann að lesa og skrifa og í framhaldi af því fer hann í grunnskóla og svo í kennaranám til Larache en snýr aftur til Tanger árið 1960 með kennararéttindi uppá vasann. Þá fer hann að skrifa endurminningar sínar og fyrir tilstilli Paul Bowles er fyrsta hefti í ævisagnaritröð hans Á brauði einu saman gefið út í Englandi árið 1973. Umbúðalaus frásögn hans af vændi og eiturlyfjaneyslu og annarskonar ólifnaði hafði djúp áhrif á lesendur víða um heim en kom af stað miklu fjaðrafoki í heimalandinu sem og í örðum ríkum múslima. Mohameð, sem lést árið 2003, átti þó síður en svo einungis hatursmenn í heimalandi sínu heldur líka ógrynni aðdáenda, sérstaklega í heimaborginni Tangier. En það er undarlegt til þess að hugsa að meistaraverk þessa rithöfundar, sem af mörgum er talinn sá merkasti sem Marokkó hefur alið í seinni tíð, skildi fyrst vera gefið út þar árið 2000.