Þvílík veisla að lesa umsagnir flugfarþega á vef Samgöngustofu. Annar hver einstaklingur virðist annaðhvort ekki hafa fengið agnarögn af heilasellum í vöggugjöf eða lætur græðgi staurblinda allt og allt.

Óþarfi að vera vitlaus þegar óskað er bóta vegna flugferða sem stóðust ekki væntingar.

Til að byrja með þetta:

Það er aðdáunarvert að sífellt fleiri Íslendingar hafa gert sér grein fyrir að við eigum töluvert sterkan lagalegan rétt þegar flug eða sigling fer úr skorðum á einhvern hátt. Við hér hjá Fararheill teljum okkur það að hluta til tekna því áður en við hófum að birta slíkar upplýsingar reglulega datt engum einasta fjölmiðli í hug að fjalla um slík mál.

Að því sögðu er hreint makalaust hve margir grunnhyggnir einstaklingar leita réttar síns. Það þó fyrir liggi alveg þokkalega ljóst hvað telst vera bótaskylt og hvað ekki.

Sem dæmi:

Allmargir einstaklingar sendu Samgöngustofu bréf með óskum um bætur þegar að allnokkur töf varð á flugi Wow Air um mitt síðasta ár vegna þess að fugl flaug inn í hreyfil vélarinnar í flugtaki. Það olli því að lenda þurfti á nýjan leik og brottför tafðist um nokkrar stundir.

Á vef Samgöngustofu má einnig lesa um harðindi tæplega tíu einstaklinga sem óskuðu bóta vegna þess að rellan lenti tveimur og hálfri klukkustund of seint á áfangastað.

Og svo framvegis og svo framvegis.

Best að hafa tvennt á hreinu:

A) Flugfélög, hvaða nafni sem þau nefnast, reyna allt sem þau geta til að forðast tafir og vesen. Ekki aðeins vegna þess að annars gætu farþegar átt inni feitan bótaseðil heldur og vegna þess að engin flugfélög nútímans vilja láta rellur sína hanga á jörðu niðri lengur en bráðnauðsynlegt er. Það er aðeins peningur í því að halda rellunum á lofti eins oft og lengi og kostur er. Ekkert flugfélag leikur sér að því að tefja brottför eða lenda seint. Þvert á móti; ef rella er sein í loftið er reglan oftar en ekki að farta tíkinni extra til að minnka eins og hægt er tafir. Fyrir utan þá staðreynd að alvarleg töf með hóteli og skutli fyrir farþega merkir að það kemur ekki króna í kassann fyrir það ákveðna flug því allt fór í hótel- og skutlkostnað.

B) Þó réttur evrópskra flugfarþega sé sterkur er óþarfi að vera tækifærissinni. Við eigum sannarlega að leita réttar okkar þegar við fáum vandræðalegar upplýsingar um tafir eða seinkun á rellu. Vélarbilun er til dæmis eitt hundrað prósent léleg ástæða fyrir töfum og þýðir bætur án þess að blikka þurfi auga. Því allar bætur, hvort sem er í Evrópu eða Bandaríkjunum, miðast við að alls ómögulegt hafi verið fyrir flugfélag að forðast tiltekið vesen sem töfum ollu. Hafi flugvirki gleymt að skipta um olíusíu og rellan þurft að nauðlenda vegna þess þá merkir það 100% bætur. En þegar það liggur fyrir að alls engar bætur fást fyrir eitt né neitt nema lent sé á áfangastað ÞREMUR klukkustundum á eftir áætlun að minnsta kosti, er vægast sagt kjánalegt að eyða tíma Samgöngustofu í kvartanir vegna þess að þú lentir TVEIMUR tímum á eftir áætlun. Ekki síður fíflalegt að ætla að fá bætur þegar rella þarf að nauðlenda sökum þess að fugl flaug í hreyfil. Ekkert flugfélag getur komið í veg fyrir slíkt og mun aldrei geta.

Við hér löngum haldið að heilbrigð skynsemi sé besta leiðin í þessum tilfellum sem öðrum en því miður eru annaðhvort allt of margir tækifærissinnar þarna úti eða að fólki er ekki í lófa lagið að leggja saman tvo og tvo. Nema hvoru tveggja sé.

Um að gera að leita réttar síns en það líka um að gera að vera sanngjörn og heiðarleg…