Svo virðist sem glæpaflokkar frá Sómalíu séu farnir að færa út kvíarnar og láti sér ekki lengur nægja að ræna og ribbaldast á höfum úti. Talið er víst að glæpaflokkur frá Sómalíu hafi myrt einn ferðamann og rænt öðrum þegar gerð var árás á ferðamannastað í Kenía í dag.

Er þetta í fyrsta skipti sem fregnir berast af árásum vopnaðra manna á ferðamannastaði í Kenía sem er nágrannaríki Sómalíu þar sem enn ríkir algjör upplausn og vafi leikur á hvort hægt sé að tala um sem ríki.

Réðust mennirnir á hjón sem voru í safaríferð í Kiunga þjóðgarðinum og gistu á ferðamannastaðnum Lamu við strönd landsins. Voru hjónin einu ferðamennirnir á staðnum þegar árásin átti sér stað. Var maðurinn myrtur og konu hans rænt.

Var fjölmennt lögreglulið sent á vettvang þegar af fréttist enda í fyrsta skipti sem eitthvað þessu líkt á sér stað en Lamu er ekki langt frá landamærum Kenía og Sómalíu. Er enda mikið í húfi fyrir stjórnvöld í Kenía en enginn annar iðnaður í landinu kemst með tærnar þar sem ferðaþjónustu hefur hælana.