Það er ýmislegt að sjá og gera í Manchester í Englandi eins og mörgum er kunnugt og ekki síst knattspyrnuáhugamönnum sem hingað hafa sótt í áraraðir. Þeir kannski með annað fyrir stafni en skoða borgina en við hin ættum ekki að láta framhjá fara að sækja Cloud 23 heim eins og einu sinni.

Hér er útsýni fínt og ekki laust við gott stuð um helgar en panta þarf með löngum fyrirvara. Mynd Derek Law
Hér er útsýni fínt og ekki laust við gott stuð um helgar en panta þarf með löngum fyrirvara. Mynd Derek Law

Það er nafn íburðarmikils bars á 23. hæð á Hilton hótelinu í borginni þar sem hægt er að halla sér aftur með te jafnt sem kampavín og fylgjast með borginni vaka og sofa.

Barinn er nokkuð vinsæll og það skýrir hvers vegna hér er þriggja til fjögurra mánaða bið eftir að komast að á föstudags- og laugardagskvöldum en frá 18 og fram að miðnætti þá daga kemst enginn inn sem ekki hefur bókað fyrirfram. Sem er ein ástæða þess að margir þeir sem borgina sækja heim hafa aldrei komið hér inn.

Þess utan getur líka verið flókið að komast inn því staðurinn er tiltölulega lítill og þeir sem setjast hér inn eiga það til að hanga nokkuð lengi. Raðir eru mjög algengar á sumrin öllum stundum.

Fararheill hefur eytt stundarkorni hér í góðra vina hópi og notið. Drykkir eru í dýrari kantinum miðað við borgina og það er fatakóði í gangi svo enginn fer hér inn illa klæddur. En útsýnið er hið besta í Manchester og gefur líka ókunnugum ágæta yfirsýn áður en farið er á röltið.

Heimasíðan hér og óhætt að hafa í huga að ef fleiri en sex eru í hóp skal bóka sitt í hvoru lagi. Sérstakt þjónustugjald er lagt á stærri hópa fólks og bið enn lengri en venjulega. Ekki klikka á að óska sérstaklega eftir gluggasæti.