Ok! Ekkert okkar er að verða neitt yngri og þaðan af síður léttari og enn er svo mikið þarna úti sem okkur langar að sjá og upplifa áður en maðurinn með ljáinn bankar á dyr. Hvernig má njóta sem mest af forvitnilegum stöðum Asíu án þess að íslenska meðalparið þurfi að veðsetja börnin og húsið með?

Vita ferðir, dótturfyrirtæki Icelandair, er að bjóða ágætan túr til þriggja landa Asíu, Kambódíu, Tælands og Laos í októbermánuði. Túrinn stendur í hálfan mánuð og kostar manninn 665 þúsund krónur eða svo. Töluvert þvælst um og margt forvitnilegt skoðað og íslenskur leiðarvísir með í för. Príma ferð ef fólk þorir ekki að treysta á sjálft sig erlendis.

Kínamúrinn einn kostulegra minja heims sem heimsóttur verður í sértilboðsferð Cruise.co.uk næsta vetur. Skjáskot

Það gott og blessað og plús í kladda Vita fyrir að bjóða sérferð aðeins út fyrir almennan þægindarammann. En það breytir ekki því að tilboð Vita er fjarri því að vera mjög gott. Það er álíka gott og Bónus þótti brilljant ódýr verslun áður en Costco setti upp verslun á klakanum. Sem sagt: okurbúlla!

Raunverulega gott tilboð væri til dæmis mánaðarlöng ferð til Indlands, Kína og Kambódíu í einum og sama pakkanum þar sem fjölmargir heimsþekktir staðir eru heimsóttir og stór hluti ferðarinnar er um borð í fimm stjörnu skemmtiferðaskipi þar sem fólk nær því líka að slaka á og hitta nýtt fólk án þess að hafa mikið fyrir. Plús auðvitað að hafa sínar eigin svalir til að kæla sig og jafnvel njóta ásta á leið inn í kambódískt sólarlag svo dæmi sé tekið.

Og jú, Angkor Wat stopp er líka á dagskránni. Skjáskot

Gallinn sá, fyrir ferðaskrifstofuna Vita, að slík lúxusferð er til í raun og veru og hún kostar ekkert mikið meira en tveggja vikna Asíuferð Vita.

Hér er um að ræða sértilboð bresku ferðaskrifstofunnar Cruise.co.uk sem sérhæfir sig í siglingum hvers kyns um heimsins höf. Í samvinnu við siglingafyrirtækið Princess Cruises hefur Cruise.co.uk tekist að setja saman sérdeilis ljúffenga ferð um sérdeilis forvitnilega staði Asíu og það í heilan mánuð fyrir heilar 750 þúsund krónum á mann ef við bætum við flugi til Englands og heim aftur að ferð lokinni.

Ef þú þekkir ekki héraðið Agra á Indlandi þá ætti þessi mynd að hjálpa 🙂 Já, Taj Mahal er í Agra. Skjáskot

Valið stendur sem sagt milli tveggja vikna ferðar Vita á 665 þúsund á kjaft eða mánaðarlangrar ferðar Cruise.co.uk á svipaðar slóðir fyrir tæpar hundrað þúsund kall í viðbót á kjaft. Til að setja hlutina í samhengi þá kostar hver dagur í ferð Vita manninn tæpar 42 þúsund krónur. Ferð Cruise.co.uk um sömu slóðir en helmingi lengri kostar manninn gróflega 31 þúsund krónur á manninn.

Svona á meðan þú hristir hausinn og lofar að versla bara íslenskt er ágætt að kíkja ojeblik á hvað er í boði með bresku ferðaskrifstofunni (ekki tæmandi upptalning): fjögurra daga túr um Kambódíu með heimamann í fararstjórn, fimm daga túr um Kína með heimamann í fararstjórn og fimm daga túr um lystisemdir Indlands með heimamann við fararstjórn.

Ó, fyrirgefðu, við gleymdum að þá eru bara taldir fjórtán dagar af 31 alls. Hinir dagana nýtur þú og betri helmingurinn lífsins um borð í fimm stjörnu skemmtiferðaskipi þar sem allt er innifalið og í klefa með þínum eigin svölum. Plús auðvitað að heimsækja staði eins og Bangkok, Nýju-Delí, Siem Reap og Agra svo ekki sé minnst á Singapúr. Fjórtán nætur um borð í yndislegu skemmtiferðaskipi þar sem allt er innifalið og fjöldi skoðunarferða á öllum áfangastöðum skipsins. Og auðvitað flug til Asíu og til baka til Bretlands plús flug heim og út til Bretlands líka 🙂

Vissulega eru 1,5 milljónir króna ekki dregnar upp úr vasa meðalmanns á Íslandinu góða þrautalaust og vissulega geta ekki allir tekið sér mánaðarfrí sísona. En fyrir þá sem geta er ferð Cruise.co.uk vægast sagt frábær. Ekki síst ef þú færð fleiri Íslendinga með í túrinn 😉

Allt um málið hér.