Vafalítið eru margir þarna úti sem kæra sig kollótta um of mikinn þvæling á ferðalögum en okkur hér á Fararheill finnst fátt skemmtilegra en slá tvær eða fleiri flugur með einu höggi við þær kringumstæður.

Heldur þurrt yfirlitum á Maspalomas á Kanarí. Mynd Lars Johanson
Heldur þurrt yfirlitum á Maspalomas á Kanarí. Mynd Lars Johanson

Ekki dapurt ef um er að ræða stutt ferðalög sem færa fólk milli tveggja mjög ólíkra heima. Tveir staðir sem falla kyrfilega undir þessa skilgreiningu eru hinar spænsku Kanaríeyjar annars vegar og hin portúgalska Madeira hins vegar. Þvælingur milli þeirra gæti ekki verið einfaldari.

Trixið er vitaskuld að ferðast á eigin vegum. Nú höfum við prófað að fljúga til Madeira frá Lissabon í Portúgal, frá Sao Miguel á Azoreyjum og frá Kanarí, Gran Canaria, og allar þessar leiðir einfaldar og frekar ódýrar ef þú bara vilt og nennir 🙂

Allt annað uppi á tening á Madeira þar sem grænn gróður finnst frá fjallstoppum ofan í fjörur. Mynd Reuben Degiorgio
Allt annað uppi á tening á Madeira þar sem grænn gróður finnst frá fjallstoppum ofan í fjörur. Mynd Reuben Degiorgio

Fyrir flug fram og aftur til Madeira frá Kanarí eyddum við svo miklu sem þrettán þúsund krónum báðar leiðir. Allt að tuttugu þúsund krónur koma þér til og frá Madeira frá Azoreyjum og frá Lissabon er mögulegt að fljúga fram og aftur niður undir tíu þúsund krónum með lággjaldaflugfélögum. Í öllum tilfellum var ein taska með í för.

Einhver kann að spyrja hvers vegna að þvælast til Madeira frá Kanarí? Svarið við því er einfalt: algjör umbylting á umhverfi og að hluta á menningu líka.

Þó aðeins ein og hálf klukkustund skilji að Kanarí og Madeira með rellu á borð við þær sem Flugfélag Íslands notar innanlands gæti munurinn á þessum eyjum ekki verið meiri. Kanarí er sandur og möl og það eina græna þar um slóðir, með stöku undantekningum, er ungt fólk sem er grænt eftir drykkju út í eitt kvöldið áður.

Madeira hins vegar er svo græn um allt að Írland er grænt af öfund. Sem helgast af því að Kanarí fær vinda helst frá Sahara eyðimörkinni meðan vindar sem blása um Madeira koma frá miðju Atlantshafinu. Ólíkt Sahara er töluvert vatn í Atlantshafinu og vænn skammtur fellur jafnt og þétt yfir Madeira þess vegna árið um kring.

Sem merkir að sé fólk forvitið um heiminn þá er óvíða þar sem hægt er að fljúga svo skamma stund og bókstaflega sjá himinn og haf milli tveggja eyja.

Hver er það svo sem býður svo lág fargjöld milli Kanarí og Madeira? Tveir aðilar reyndar. Annar er hið kanaríska flugfélag Binter og hitt portúgalska flugfélagið Sata. Bara gæta þess að bóka með sæmilegum fyrirvara og þú gætir kynnst tveimur stórfínum eyjum á gjafverði.