Þeim fer fjölgandi táknum þess að landið rísi og landinn detti í 2007 pakkann á nýjan leik. Eitt dæmið er 108 daga löng lúxussigling sem Heimsferðir auglýsa nú á tæplega 3,8 milljónir króna.

Dallurinn sem flytur fólk um heiminn í janúar næstkomandi. Mynd ghiac2011
Dallurinn sem flytur fólk um heiminn í janúar næstkomandi. Mynd ghiac2011

Slíkir fjármunir munu liggja á lausu hjá 20 til 25 þúsund Íslendingum samkvæmt opinberum upplýsingum yfir þá sem eiga hvað mest í landinu og því ekki svo fráleitt að bjóða slíkt.

Ferðin ekki amaleg heldur um fjórar heimsálfur og stoppað á fjölmörgum athyglisverðum stöðum á leiðinni eins og gengur. Förin hefst í Savona á Ítalíu og gróflega til Suður Ameríku, Eyjaálfu, Mið-Austurlanda áður en komið er til hafnar að nýju tæplega fjórum mánuðum síðar. Allur matur um borð innifalinn og áfengi líka en þó aðeins á matmálstímum. Það má þannig bæta vel ofan á drykkjarreikninginn sé miðað við hefðbundinn Íslending á siglingu.

Það má líka bæta nokkrum hundrað þúsund köllum ofan á kostnaðinn því muni fólk ekkert um tæpar fjórar milljónir króna má fastslá að sama fólk er ekki að hanga í loftlausum innriklefa. Svalaklefi lágmark og þá er kostnaðurinn við ferðina kominn yfir fimm milljónir alls á par.

Heimsferðir selja þennan túr í innriklefa á 1.880.000 milljón krónur á mann og skoðun Fararheill leiðir í ljós að það er ágætt verð. Sami klefi í sömu ferð keypt beint gegnum skipafélagið sjálft kostar 1.797.000 krónur miðað við miðgengi dagsins.

Reyndar er hallærislegt að í ferð Heimsferða er ekki innifalið að komast til Savona eða frá. Né heldur fararstjórn eða þjórfé um borð. Er ekki lágmark ef þú ætlar að selja ferð upp á margar milljónir að bjóða allan pakkann? Þið vitið, þetta sem kallast þjónusta 😉 Gera má ráð fyrir að raunverulegur lágmarkskostnaður skjagi í tvær milljónir á haus með ferðum og þjórfé og gott betur ef fólk er drykkfellt.