Það er nákvæmlega eins og fótboltasagan segir: aldrei afskrifa Þjóðverjann í einu né neinu 🙂

Fimm stjörnu pakkinn í hús hjá Lufthansa samkvæmt Skytrax

Fyrr í vikunni varð þýska flugfélagið Lufthansa það fyrsta í Evrópu til að verða valið fimm stjörnu flugfélag af viðskiptavinum gegnum ferðamiðilinn Skytrax. Stjörnugjöf Skytrax þykir sú markverðasta í netheimum hvað flug varðar.

Ólíkt velflestum öðrum slíkum miðlum þá eru það viðskiptavinir sjálfir sem gefa flugfélögum einkunnir gegnum vef Skytrax en ekki einhverjir útvaldir Engeyjarmenn á kontór með kleinur og kaffi og koníak á kantinum. Það er sem sagt óhætt að taka mark á stjörnugjöf Skytrax 🙂

Þýska flugfélagið þykir hafa tekið heilmiklum framförum í þjónustu við viðskiptavini á sama tíma og flugfélagið hefur sannarlega lent í mótvindi með verkföllum starfsfólks og tjóni hjá dótturfélögum. Alls ólíkt íslenskum flugfélögum sem líkt og íslenskar matvöruverslanir blésu á að koma Costco til landsins myndi breyta nokkrum hlut. Segir sitt um það útlærða fólk sem situr í toppstöðum verslana landsins og hjá flugfélögum landsins. Það er jú ekki eins og Icelandair eða Wow Air séu að ríða feitum hesti hjá Skytrax. Þvert á móti eiginlega enda kostar þjónusta peninga og Íslendingar hafa alla tíð látið allt yfir sig ganga. Engin þörf að bæta neitt þar.

Ástæða þess að við minnumst á þetta afrek Lufthansa er sú að fargjöld flugfélagsins eru oft á tíðum flennigóð og þrátt fyrir fimm stjörnurnar er flugfélagið ekki að verðleggja flug almennt á fimm stjörnu verði.

Aldeilis ástæða til að hafa Lufthansa bak eyra ef þvælingur stendur fyrir dyrum og þú vilt topp þjónustu alla leið 🙂