Kunningjahjón eins úr ritstjórn eyddu nýlega átta klukkustundum í bið á hinum miður yndislega Alicante-flugvelli á Spáni með smáfólk með í för. Harðir stólar, lítið pláss, dýrir veitingastaðir og svo seinkaði rellunni um tvær stundir ofan á allt. Familían hefði auðveldlega getað gert biðina þúsund prósent yndislegri.

Betri stofan á Alicante-flugvelli er snöggtum betri en biðsalurinn niðri. Mynd Aena

Ekki í fyrsta skipti sem við bendum á þetta en þið vitið hvað spekingar segja um vísuna. Sú aldrei of oft kveðin.

Ef þið eigið nokkrar evrur eftir í vasanum á flugvellinum eftir dúllerí í Evrópunni og framundan er löng bið eftir heimferð er engin raunveruleg þörf að láta sér nægja þetta beisik óvinalega stöff í brottfararsalnum. Slíkir oftast hannaðir til að illa fari um fólk svo það hangi ekki of lengi.

Öðru máli gegnir um betri stofur flugvalla heimsins. Stundum eiga viðskiptavinir hins og þessa flugfélags einkarétt á dúlleríi þar en oftar er reyndin sú að jafnvel þó flogið sé á sardínufarrými er vandræðalaust að kaupa aðgang að betri stofunum.

Auðvitað blóðpeningar en ef lífið væri þægilegt í hefðbundnum brottfararsölum flugvalla væri engin að punga út extra fyrir smá frið, rólegheit og þægindi í betri stofum. Kapítalismi í hnotskurn.

Með þessu eigum við við að velflestir, jafnvel bakpokaferðalangar á sardínufarrými, geta keypt sér aðgang að þykkum notalegum sófum, dagblöðum, netaðgangi, oftast nær hlaðborði af mat og drykkir með plús aðstoð starfsmanna þegar við á.

Það er nefninlega raunin að þó stöku flugfélög „eigi” sínar betri stofur fyrir sína betri farþega þá er oftast nær betri stofa á flugvöllum sem er fyrir alla sem borga lítillega extra.

Til dæmis er það raunin í Alicante. Aðgangur að betri stofunni þar kostar fullorðinn um 3.900 krónur þegar þetta er skrifað og feitur afsláttur fyrir smáfólkið. Og ef útlit er fyrir að bið verði lon og don er ekki svo heimskulegt að eyða nokkrum þúsund köllum til að hafa það næs áður en gengið er um borð heim á leið. Þú ert jú í fríi til að njóta og slappa af…