Við hér ættum kannski að reyna fyrir okkur í bisness. Það sem við kölluðum eftir fyrir sex árum síðan er loks orðið að raunveruleika í Bretlandi.

Hipp hipp húrra. Loks aðilar í tryggingabransanum farnir að sjá ljósið.

Mörg okkar hugsa lítið um ferðatryggingar per se áður en haldið er utan. Stór ástæða þess sú að ef við greiðum fyrir ferðina að stærstum hluta með kreditkorti fæst sjálfkrafa bærileg ferðatrygging gegnum kortafyrirtækið eða bankann sem kortið gefur. Sömuleiðis fylgja takmarkaðar ferðatryggingar með í heimilistryggingum hjá nokkrum tryggingafélögum.

Það virkar alla jafna príma fyrir þau okkar sem eru bara að fara í viku til Albir á Spáni eða taka tvær vikur í Nice og hættulegasti partur ferðarinnar er að skera sig á steini í fjöruborðinu.

Korta- eða heimilistryggingar eru hins vegar ekki málið ef þú ert eins og við hér og vilt príla fjöll í Georgíu, snorkla við strendur Belís eða þvælast um lítt þekkt héruð Indlands með bakpoka á öxl. Með öðrum orðum sækja heim staði sem eru utan þessa hefðbundna og hætturnar fleiri og alvarlegri en ef þú færð skurð í tánna í Alicante.

Ekki þarf heldur slys til. Ritstjórn Fararheill ferðast ekkert án dýrrar fartölvu og á köflum dýrari ljósmyndabúnaðar. Við viljum gjarnan vera tryggð fyrir stuldi eða tjóni á þeim hlutum ef svo illa vildi til einhvers staðar.

Til þess hér á fákeppnismarkaðnum á Fróni þarf að taka út og greiða fyrir tólf mánaða ferðatryggingu sem kostar drjúgan skilding. Bara sæmileg fartölvutrygging rúllar vel yfir fimm þúsund krónur á mánuði og það sinnum tólf er upphæð sem skiptir töluverðu máli fyrir meðaltekjufólk.

Punkturinn okkar fyrir nokkrum árum síðan var sá að flestar ferðir fólks taka skemur en einn mánuð og kannski tvo til þrjá mánuði í lengsta falli hjá ævintýrafólki. Hvers vegna ekki að bjóða ferðatryggingar sem dekka aðeins þann tíma sem þú ert á ferðalaginu?

Það þarf auðvitað ekkert að senda skeyti á upplýsingafulltrúa tryggingafélaganna til að vita svarið. Tólf mánaða lágmarkið er auðvitað til að Sjóvá, Vís, Vörður og aðrir geti sýnt hluthöfum fram á feitan hagnað á ferðatryggingum. Skítt með tryggingatakann. Hann hefur ekkert val og getur ekkert farið annað svo við tökum hann í rassinn eins og hægt er.

En fyrir rúmri viku bauð loks aðili í Bretlandi raunverulega það sem við töluðum um á sínum tíma. Ferðatrygging sem er aðeins í gildi þann tíma sem tryggingahafi er á ferðinni utanlands og aðeins greitt fyrir tímann erlendis. Tryggingin, og greiðsla fyrir, dettur sjálfkrafa niður um leið og lent er í Keflavík. Eða London í þessu tilfelli.

Fyrirtækið heitir Revolut og samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa fyrirtækisins dekkar tryggingin líka erlenda einstaklinga sem þess óska. Hið góða er að Revolut er í raun ekki tryggingafyrirtæki per se heldur app. Það er, með öðrum orðum, hægt að negla tímabundna ferðatryggingu gegnum app á símanum í hvert sinn sem þú heldur erlendis 🙂

Þetta snilld út í eitt og samkvæmt vef fyrirtækisins eru bætur alvöru meðan gjaldið per dag er svo mikið sem 160 kall á dag fyrir slysa- og tannlæknatryggingu. Kannski svona 500 kall á dag fyrir tryggingu sem dekkar allt þetta helst sem við höfum áhyggjur af á lúnu og skítugu gistiheimili í Perú.

Brilljant. Endilega skoðaðu málið hér og láttu reyna á hvort fyrirtækið vill ekki dekka þitt og þína á ferðum erlendis á ÞÍNUM FORSENDUM.