Seint koma sumir en koma þó. Það máltæki á mætavel við þennan daginn þegar forráðamenn flugfélagsins Icelandair komast loks inn í nútímann og mæta samkeppni með samkeppni en ekki fálæti. Örfáum árum of seint en betra er jú seint en aldrei 🙂

Samkeppni er best mætt með samkeppni 🙂 Mynd Masaki Watanabe

Icelandair kynnti í dag svokallað „economy light“ fargjald sem verður til sölu á allmörgum leiðum flugfélagsins eftirleiðis. Það útleggst gróflega sem léttfarrými á hinu ylhýra en stjórnendur virðast láta sig íslenskuna lítið varða samanber hið glataða nafn Air Iceland Connect á hinu gallharða Flugfélagi Íslands.

Fæðingin var jú erfið enda bara gamlir, hvítir karlar á toppnum hjá flugfélaginu og þeir sjá oft ekki skóginn fyrir trjánum enda flestir setið við stjórnvöl árum saman með feit laun og sporslur og slík staða vill oft verða vettvangur kæruleysis og notalegheita.

Sem hefur haft í för með sér að þegar loks brast á samkeppni í flugi til og frá landinu eftir að hafa átt markaðinn nánast skuldlaust og okrað á landanum um áraraðir, var Icelandair álíka mikið í stakk búið undir slíkt og MySpace var klárt fyrir samkeppni við Facebook.

Það var fyrst og fremst sú staðreynd sem olli því að hlutabréf í Icelandair hafa lungann úr árinu fallið hraðar en fylgi Bjartrar framtíðar. Fjármagnseigendur sáu fátt spennandi við flugfélagið jafnvel þó tekjur þess og hagnaður væri barasta með ágætum.

Til marks um seinagang Icelandair gerðist fátt markvert hjá flugfélaginu FYRR en hlutabréfin féllu skarpt fyrr á þessu ári. Þá fór allt í gang og forstjórinn sat í stól sínum til fimm á daginn en var ekki farinn að dúlla sér með frúnni á næstu smurbrauðsstofu eða skrifa langar ræður fyrir samtök úti í bæ stundvíslega klukkan 14 virka daga.

Nema að það þurfti enga fræðinga til að sjá að vegur Icelandair fór niður á við strax árið 2015 þó hlutafjárkaupendur væru ekki alveg með á nótum. Það ár snarfjölgaði þeim flugfélögum sem til og frá Íslandi flugu og helmingur af þeim voru lággjaldaflugfélög. Sum þeirra voru að fljúga á alla vinsælustu staði Icelandair: London og Köben og það stundum fyrir þrefalt lægra verð. Nú þarf ekki annað en þokkalega heilbrigða skynsemi til að gera sér ljóst að hvort sem um er að ræða fólk eða fyrirtæki þá munar sannarlega um tug- og hundruð þúsunda króna þegar kemur að flugferðum. Ef heilbrigð skynsemi dugar ekki til eru allmargar vísindalegar rannsóknir þarna úti sem sýna fram á að vildarklúbbar, elskulegheit starfsfólks og slíkt telur nánast ekkert hjá neytendum ef samkeppnisaðili er að bjóða lægra verð. Lágt verð vinnur alltaf. Punktur!

Alas, þessu hafa forráðamenn Icelandair loks áttað sig á. Economy light þýðir að aðeins er ferðast með 10 kílóa handfarangur, sem hentar nánast öllum, og fyrir vikið eru fargjöldin á pari við það besta sem „lággjaldaflugfélagið“ Wow Air býður sínum viðskiptavinum svo dæmi sé tekið. Flug til Hamborgar, Dublin, London, Köben, Brussel, Stokkhólms og Osló UNDIR TÍU ÞÚSUND KRÓNUM aðra leiðina þegar þetta er skrifað. Og það með nærur og sokka til skiptanna plús tannbursta.

Hvað þurfum við meira en það 🙂

PS: Hængur virðist alltaf fylgja öllu sem Icelandair gerir. Þó hvergi komi það fram í auglýsingum um economy light valkostinn þá er smátt letur á vef Icelandair þess efnis að um „sérstakt kynningartilboð“ sé að ræða til 9. október. Sem bendir til þess að fargjöld á economy light hækki þann 10. október. Hversu mikið kemur hvergi fram.