Þrátt fyrir blankheit á blankheit ofan eru stjórnvöld í Róm að reyna sitt allra besta til að ferðamenn til borgarinnar fái meira fyrir snúðinn. Fyrr í þessum mánuði lauk endurbótum á efstu hæð hins stórkostlega hringleikahúss Colosseum og nú verið opnað þar upp fyrir áhugasama.

Loks gefst gestum tækifæri að sjá Colosseum frá efstu hæð þessa stórkostlega mannvirkis. Mynd Ansa

Þetta eru talsverð tíðindi. Gefst gestum Colosseum nú færi á að skoða þetta magnaða mannvirki frá efstu hæð, sem auðvitað gefur mun flottara útsýni yfir bæði leikvanginn forna en ekki síður yfir hluta hinnar fallega Rómar. Gestir geta með öðrum orðum notið Colosseum eins og keisarar Rómarveldis gerðu til forna hátt yfir hinum plebbunum. Með þeim formerkjum þó að keisararnir nutu þar leikja en við nútímafólkið verðum að sætta okkur við rústir.

Þó hér sé og hafi verið troðið af ferðafólki um langa hríð þá breytir það ekki því að heimsókn hingað er skylda hverjum sem álpast inn í Róm. Þrátt fyrir að leikvangurinn sé varla nema helmingur þess sem var þegar Colosseum var byggt þarf ekki nema loka augunum augnablik á staðnum til að sjá ljóslifandi fyrir sér hvers konar stórvirki leikvangurinn hefur verið á sínum tíma. Ekki síður hefði verið forvitnilegt að vitna sunnudagsskemmtun hér þó meira blóð hafi hér þornað í sandinum en Blóðbankinn kæmist nokkru sinni yfir að geyma á Eiríksgötunni.

Algjörlega ómissandi stopp en hafið í huga að það er heilmikið labb upp í efstu hæðir og alls ekki fyrir alla. Sérstaklega ekki ef hitastigið er mikið yfir 20 gráður.